Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Meinlítið veður á landinu í dag en hvellur á morgun

16.10.2021 - 08:19
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Veðurstofan spáir hæglætisveðri á landinu í dag með austan og norðaustanátt. Vindur verður á bilinu fimm til þrettán metrar á sekúndu, dálítil él norðan og austanlands en svolítil rigning eða slydda af og til á sunnanverðu landinu en þurrt fram eftir degi vestantil.

Hiti kringum frostmark fyrir norðan og austan, en allt að 6 stig syðst. Hálka er víða á landinu, til að mynda á Holtavörðuheiði, Þröskuldum, Vatnsskarði, Öxnadalsheiði og á Svalbarðsströnd. Þá er snjóþekja og éljagangur á Siglufjarðarvegi og í Héðinsfirði. Á Fjarðarheiði er hálka og hálkublettir á öðrum leiðum.

Á morgun nálgast lægð úr suðsuðvestri og það bætir í vindinn, eftir hádegi má gera ráð fyrir strekkingi eða allhvössum vindi víðast hvar, en stormur með suðurströndinni. Það má einnig búast við úrkomu um mestallt land á morgun. Nokkuð víða verður slydda eða snjókoma og hiti nálægt frostmarki, en seinnipartinn hlýnar á sunnanverðu landinu og þá má búast við talsverðri rigningu á láglendi á þeim slóðum og allt að 7-8 stiga hita.

Á morgun gætu akstursskilyrði á fjallvegum orðið erfið vegna vinds og ofankomu og færð gæti jafnvel spillst á sumum þeirra. Þeim sem hyggja á ferðalög yfir heiðar og fjallvegi á morgun er ráðlagt að kynna sér aðstæður áður en lagt er af stað.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV