Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kári: „Konan mín var búin að sjá þetta fyrir"

Mynd: Einar Árnason / RÚV

Kári: „Konan mín var búin að sjá þetta fyrir"

16.10.2021 - 21:47
„Ég er búinn að vera að telja niður æfingar og skot. Ég taldi mig eiga eftir tvö skot eftir í þessum fæti en ég held þau séu bara orðin núll,“ sagði Kári Árnason þegar hann kom haltrandi í viðtal við RÚV, nýkrýndur bikarmeistari með Víkingi. Þetta var síðasti leikurinn á keppnisferli Kára sem hefur nú lagt skóna á hilluna, 39 ára.

Kári hefði varla geta lokið ferlinum á betri hátt. Hann skoraði annað mark Víkings í 3-0 sigrinum á ÍA og Víkingur er bæði Íslands- og bikarmeistari 2021. „Konan mín var búin að sjá þetta fyrir. Hún dreymdi þetta í nótt. En við vorum búnir að æfa þetta á æfingasvæðinu. Ég vissi að boltinn myndi koma inn á þetta svæði."

Kári hefur átt margar ógleymanlegar stundir á knattspyrnuvellinum með íslenska landsliðinu og Víkingi meðal annars en hann segir þetta sumar standa upp úr, í það minnsta á þessu augnabliki. „Þessi leikur og þetta tímabil. Samstaðan í þessu liði og að hafa fengið að taka þátt í þessu. Að sjá þessa stráka vaxa og dafna sem knattspyrnumenn og skrifa sig á spjöld sögunnar. Þetta stendur upp úr, að vinna Íslands- og bikarmeistaratitil fyrir mitt heimafélag.“

Viðtal við Kára má sjá í spilaranum efst í þessari frétt.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Kári og Sölvi Geir Ottesen luku knattspyrnuferli sínum eftir bikarúrslitaleikinn.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Arnar: „Þetta eru sannir meistarar"

Fótbolti

Víkingar bikarmeistarar