Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Coldplay með loftslagsáætlun vegna tónleikaferðalags

epa05662186 Chris Martin, lead singer of British rock band Coldplay, performs at Suncorp Stadium in Brisbane, Tuesday, Dec. 6, 2016. Coldplay are in Australian for  a five-show tour.  EPA/DAN PELED   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA

Coldplay með loftslagsáætlun vegna tónleikaferðalags

16.10.2021 - 06:36

Höfundar

Breska popphljómsveitin Coldplay fékk tvo sérfræðinga til að gera aðgerðaáætlun vegna heimsferðar sveitarinnar á næsta ári. Söngvarinn lýsti því yfir árið 2019 að þeir myndu ekki fara í tónleikaferðalag um allan heiminn fyrr en það yrði hægt á sjálfbæran hátt. Ferðalagið á næsta ári verður farið á einkaþotu en þó verður gripið til ýmissa ráðstafana til að minnka kolefnissporið.

Aðgerðaáætlunin er í tólf liðum og er fjallað er um hana í hlaðvarpsþætti breska ríkisútvarpsins, BBC, The Global News Podcast.  Á tónleikunum verður dansgólf sem virkar þannig að orkan úr dansi áhorfenda verður nýtt til að búa til rafmagn. Þá verður aðeins notast við endurnýtanlega orkugjafa á tónleikunum. Ætlunin er að með þessum aðgerðum, og fleiri, verði hægt að minnka kolefnissporið um helming frá því sem annars myndi verða. 

Rætt er við söngvara hljómsveitarinnar, Chris Martin, í hlaðvarpsþættinum The Global News Podcast, og kveðst hann viðbúinn til að hlusta á gagnrýni, þar á meðal vegna einkaþotunnar. Þeir séu að reyna sitt besta þó það sé ekki fullkomið. 

Fyrstu tónleikarnir verða haldnir á Kosta Ríka og valdi hljómsveitin það land vegna þess hve hátt hlutfall orku þar er úr endurnýjanlegum orkugjöfum, yfir 98 prósent.