Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ákvörðun í máli Gylfa eftir helgi

16.10.2021 - 08:35
epa09062516 Everton's Gylfi Sigurdsson (L) and Chelsea's Mateo Kovacic (R) in action during the English Premier League soccer match between Chelsea FC and Everton FC in London, Britain, 08 March 2021.  EPA-EFE/Mike Hewitt / POOL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA
Tíðinda er að vænta í máli knattspyrnumannsins Gylfa Sigurðssonar á mánudaginn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Manchester á Englandi. Gylfi Þór var handtekinn 16. júlí í sumar en hefur gengið laus síðan. Lögregla hafði því til dagsins í dag til að taka ákvörðun um hvort hann verði ákærður eða málið látið niður falla. Í svari lögreglu segir að úr því að 16. október sé laugardagur verði beðið með að tilkynna ákvörðun um framhaldið þangað til eftir helgina.

Gylfi var handtekinn 16. júlí vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi en látinn laus gegn tryggingu að lokinni skýrslutöku. Þremur dögum síðar greindi félagslið hans Everton frá því að leikmaður liðsins væri í ótímabundnu leyfi vegna lögreglurannsóknar. Í byrjun september kom í ljós að Gylfi myndi ekki leika með Everton á þessu ári en þá var birtur listi yfir leikmenn í leikmannahópi Everton fyrir tímabilið í ensku úrvalsdeildinni og Gylfi var ekki þar á meðal. 

Gylfi hefur ekki verið valinn í landsliðshópinn í síðustu leikjum. Arnar Þór Viðarsson, þjálfari karlalandsliðsins, sagðist ekki hafa haft samband við Gylfa þegar hann var spurður út í mál hans á blaðamannafundi fyrir leikina gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi. „Gylfi er ekki valinn og ég hef ekki haft samband við Gylfa, meira get ég ekki sagt um þetta mál,“ sagði Arnar Þór. Undanfarið hafa komið fram ásakanir á nokkra leikmenn sem spilað hafa með landsliðinu síðustu ár og þær hafa haft töluverð áhrif á val landsliðsþjálfarans. Næstu leikir liðsins eru gegn Rúmeníu á útivelli 11. nóvember og Norður-Makedóníu 14. nóvember.