Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Matarkarfan víða hækkað í verði frá því í vor

15.10.2021 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd: Sanja Gjenero - RGBStock
Samkvæmt nýrri könnun ASÍ hefur verð á mat hækkað í sex af átta verslunum frá því á vormánuðum. Mesta hækkun í einstaka verslun nam 3,4 prósentum og mjólkurvörur, kjöt og egg hafa hækkað töluvert í öllum verslunum.

ASÍ gerði könnun á verði á matvöru í lok mars og aftur nú í byrjun október. Þegar þessar tvær kannanir eru bornar saman kemur í ljós að verð hefur hækkað mest í verslunum Heimkaupa, eða um 3,4 prósent en minnst í Krambúðinni og Kjörbúðinni, en þar nam hækkunin hálfu prósenti. Matarkarfan lækkaði í verði í einni verslun, í Hagkaup, þar sem verð lækkaði um 0,6 prósent.

Hjá lágvöruverðsverslununum hækkaði matarkarfan um 0,8 prósent hjá Krónunni en um 1,8 prósent hjá Bónus. Í Nettó stóð verðið í stað. 

Athygli er vakin á því í könnuninni að verð á mjólkurvörum, ostum og eggjum hafi hækkað nokkuð á milli kannana í öllum verslunum. Mest hafi hækkunin verið í verslunum Iceland, eða um 8,4 prósent en minnst í Kjörbúðinni um 3,1 prósent. Kjötvara hækkaði einnig í sex af átta verslunum, mest í Kjörbúðinni um 5 prósent og í Bónus um 4,9 prósent. Í Krónunni lækkaði hins vegar verð á kjötvöru um 3,2 prósent og í Krambúðinni um 2,4 prósent. 

Grænmeti og ávextir er sá vöruflokkur sem hefur lækkað mest í verði. Í Bónus lækkaði verð á grænmeti og ávöxtum um 4,8 prósent og 4,7 próesent í Nettó. Þá lækkaði verð á sykruðum vörum í fimm af átta verslunum, mest í Nettó um 4,4 prósent en mesta verðhækkunin í þeim flokki er hjá Heimkaup, um 2,7 prósent. 

 

Um framkvæmd könnunarinnar segir: Verðlagseftirlit ASÍ mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, og safa. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup, Kjörbúðinni, Iceland, Heimkaup og Krambúðinni.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.