Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Loftslagsmálin stór í stjórnarmyndunarviðræðunum

Mynd með færslu
 Mynd: grafík: Geir Ólafsson - RÚV
Formenn flokkanna þriggja segja enn sé verið að tala um málaflokkanna í stjórnarmyndunarviðræðunum. Áfram á að leggja áherslu á loftslagsmál en flokkarnir hafa ólíka sýn á það. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að eitthvað verði að gera í því þunglamalega fyrirkomulagi sem rammaáætlunar er þegar teknar séu ákvarðanir um græna orku.

Katrín Jakobsdóttir formaður VG sagði eftir ríkisstjórnarfund að viðræðunum miði vel: 

„Við erum í raun og veru bara áfram að fara yfir þessa ólíku málaflokka og kafa dýpra í einstök mál. Þannig að miðar bara ágætlega áfram,“ segir Katrín.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir formennina vera að fara yfir verkefnalistann: 

„Og reyna að tala okkur niður að einhverri sameiginlegri sýn um það hvað við eigum eftir óklárað. Það eru nokkur mál sem við þurfum að gefa okkur tíma í og það borgar sig svo að það verði ekki erfiðleikar vegna þeirra mála síðar,“ segir Bjarni. 

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir að þó sömu flokkar séu að tala saman þá séu nýjar áherslur. Loftslagsváin vofi yfir og spili inn í áskoranir næstu fjögurra ára. Hann vísar í umræður á Arctic Circle ráðstefnunni um grænar fjárfestingar: 

„Til þess að bjarga sér út úr þeim vanda sem mannkyn hefur komið sér í. Og við getum sannarlega verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð í gegnum áratugina. En við eigum þar líka tækifæri sem við getum nýtt og haldið áfram að vera fyrirmynd annarra þjóða og það er kannski eitt af því sem við erum að ræða og að verða sammála um,“ segir Sigurður Ingi. 

Eruð þið sammála um þessa málaflokka, félagslegar áherslur og loftslagsmálin?

„Ja, ég held við getum alveg átt von á því að ná saman um þessar áherslur,“ segir Katrín. 

Varðandi eins og hálendisþjóðgarðinn ætlið þið að gefa hann eftir?

„Nei, ég meina hálendisþjóðgarðurinn er á dagskrá VG hér eftir sem hingað til,“ segir hún. 

Bjarni segir loftslagsmálin hafa margar hliðar: 

„Ein er sú að fara í orkuskipti, hætta að flytja inn olíu og nýta græna orku. Og við verðum að gera eitthvað í því að það hefur svona þótt vera alltof þunglamalegt fyrirkomulag þeirra mála, hvernig við förum í gegnum þingið með rammaáæltun svo dæmi sé tekið. Við erum spennt fyrir tækifærum til þess að nýta gærna orku, byggja upp atvinnu, fara í orkuskiptin osfrv. Og við viljum leggja áherslu á það sjálfstæðismenn í þessum viðræðum,“ segir hann.