Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Langþráður sigur Breiðabliks

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Langþráður sigur Breiðabliks

15.10.2021 - 19:57
Eftir 18 tapleiki í efstu deild í röð vann Breiðablik langþráðan sigur þegar þeir tóku á móti ÍR í efstu deild karla í körfubolta.

Breiðablik tók á móti ÍR í fyrri leik kvöldsins í efstu deild karla í körfubolta. Blikar eru nýliðar í deildinni en síðast þegar Breiðablik var í efstu deild vann liðið aðeins einn leik. Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn en að honum loknum voru ÍR-ingar þremur stigum yfir en staðan var 21-24. 

Annar leikhluti var einnig jafn og spennandi en Breiðablik átti góðan endasprett og var staðan 47-42 í hálfleik. Ekki minnkaði spennan í seinni hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna í þriðja leikhluta. Aðeins einu stigi munaði á liðunum fyrir fjórða og loka leikhlutann en þá var staðan 72-71 fyrir Breiðablik. 

Í lokaleikhlutanum voru það heimamenn sem voru betri og lögðu þeir grunninn að sigrinum á upphafsímínútum fjórða leikhluta þegar þeir breyttu stöðunni úr 79-79 í 86-79. Að lokum vann Breiðablik nokkuð öruggan sigur, 106-92. 

Hilmar Pétursson var stigahæstur í liði Breiðabliks með 23 stig. Hjá ÍR var Collin Anthony Pryor stigahæstur með 24 stig.