Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flóttamannastofnun SÞ vill að Norðurlöndin geri betur

15.10.2021 - 20:20
epa09518488 Afghan families, who were displaced from other parts of the country, prepare to return to their home towns, in Kabul, Afghanistan, 11 October 2021. The Ministry of Refugees and Repatriation has begun the process of returning displaced families from the capital Kabul to their home province, supporting them with transportation and cash assistance.  Lack of international recognition remains a pressing problem for the Taliban, who are not only geopolitically isolated but are also facing a major cash crunch after international financing institutions froze most of the funds Afghanistan has long relied upon for economic stability.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR; vill að Norðurlöndin hraði og einfaldi málsmeðferð í málum afganskra flóttamanna sem þegar hafa fengið vernd og vilja fá fjölskyldumeðlimi til sín. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stofnuninni. 

Mikið er um að fólk sem náð hefur að flýja landið hafi samband við stofnunina og lýsi þungum áhyggjum af afdrifum fjölskyldumeðlima sem eru þar enn eða hafa flúið til nágrannalanda. Nú er tekið að kólna í veðri í landinu og mikil þörf  á neyðaraðstoð að sögn stofnunarinnar.

Hvetur ríki til að forgangsraða í þágu Afgana

Í ljósi alvarlegs stjórnmálastands og framgangs Talíbana í landinu hvetur Flóttamannastofnunin ríki til þess að forgangsraða í þágu mála sem varða fjölskyldusameiningu og einfalda ferlið í kringum þau. Mikilvægi þess að standa vörð um einingu fjölskyldunnar sé verndað í alþjóðalögum og þess sé jafnframt getið í löggjöf margra landa. 

Fjölskyldusameining geri fólki í neyð kleift að flýja heimaland sitt á löglegan hátt og letji þar með flóttamenn í því að leggja upp í hættuleg ferðalög eða nýta sér þjónustu smyglara. Þá sé fjölskyldusameining brýnn liður í því að auðvelda flóttamönnum að aðlagast nýju samfélagi. 

Óttast að margir mæti hindrunum

Þrátt fyrir þetta óttast stofnunin að margir afganskir flóttamenn kunni að mæta miklum stjórnsýslulegum hindrunum í að nýta sér rétt sinn til að sækja um sameiningu. Almennt hafi Norðurlöndin gefið flóttamönnum kost á því en síðastliðin ár hafi það orðið torsóttara. 

Stofnunin hefur áhyggjur af ströngum tímamörkum um hvenær skuli skila inn umsóknum, löngum biðtíma, þröngum skilgreiningum á því hverjir teljist tilheyra fjölskyldu flóttamannsins og ólíkri stöðu þeirra sem teljast til flóttamanna og annarra sem fengið hafa takmarkaðri vernd.

Þessu til viðbótar segir stofnunin fjárhagslegar og praktískar ástæður oft koma í veg fyrir að fjölskyldur geti sameinast, þar á meðal hár kostnaður við umsóknir, strangar kröfur um framfærslugetu og erfiðleikar við að koma umsókninni til skila. Margir eigi erfitt með að ferðast innan Afganistan og að auki séu mörg sendiráð og skrifstofur ræðismanna lokaðar. 

Hvatningin rými við tillögur flóttamannanefndar

Stofnunin segir að einhver ríki hafi hraðað málsmeðferð og sett fjölskyldusameiningu afganskra fjölskyldna í forgang en það megi einfalda ferlin frekar og hraða þeim. Stofnunin hvetji því ríki heims, og Norðurlöndin þar með talin, til þess að ryðja hindrunum á þessu sviði úr vegi, eftir því sem framst er unnt og meta umsóknir með mannúð og sveigjanleika að leiðarljósi.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður flóttamannanefndar stjórnvalda, segir skilaboð stofnunarinnar ríma ágætlega við tillögur nefndarinnar frá í ágúst, sem settar voru fram vegna ófremdarástands í Afganistan. Þær lutu meðal annars að því að  setja umsóknir Afgana sem hér búa um fjölskyldusameiningu í forgang og auka fjárveitingar til Útlendingastofnunar til að hraða umsóknunum.

Óbreytt skilyrði

Reglum um fjölskyldusameiningar hefur ekki verið breytt. Meðal þeirra skilyrða sem fólk sem hingað kemur á grundvelli fjölskyldusameiningar þarf að uppfylla er að geta sannað á sér deili með gildu vegabréfi með gildistíma sem er minnst 90 dagar umfram áætlaðan gildistíma dvalarleyfis á Íslandi, framvísa vottorði um að hafa ekki afplánað refsingu erlendis síðastliðin fimm ár, vera með trygga framfærslu, að minnsta kosti 212 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt og vera sjúkratryggð á Íslandi. 

Stjórnvöld áætla að taka á móti um 120 Afgönum í ljósi þess neyðarástands sem skapast hefur í Afganistan.