Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki óhætt að veiða meira en 20.000 rjúpur í haust

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Náttúrufræðistofnun leggur til að aðeins megi veiða 20.000 rjúpur í haust. Aldrei í 16 ára sögu veiðiráðgjafar rjúpu hefur hauststofn verið minni en í ár. Fuglafræðingur segir að rjúpnastofninum hafi hnignað, til lengri tíma litið.

Tillaga um veiðar á 20.000 rjúpum er 5.000 rjúpum færra en í fyrrahaust. Þá var fækkun um 35 prósent frá 2019.

Minnsti hauststofn sem metinn hefur verið

Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir að veiðiráðgjöfin hafi aldrei verið lægri. „Veiðiráðgjöf hefur verið gefin út núna í 16 ár, þannig að í rauninni er þetta ekki langur tími. En á þessu skeiði þá er þetta minnsti stofn sem við metum, hauststofninn núna.“

Girðingar, loftlínur og fleira grandi rjúpunni

Rjúpnastofninn sveiflast reglulega og hámarkið hefur í gegnum árin verið á tíu til tólf ára fresti. Ólafur segir að almennt eigi þessar sveiflur sér náttúrulegar skýringar, en margt annað í umhverfinu af mannavöldum grandi rjúpunni. „Þar má nefna girðingar, loftlínur og fleira sem verður fjölda rjúpna að grandi á hverju ári.“

„Stofninum hefur verið að hnigna“

Almennt sé stofninn á niðurleið eða kominn í lágmark, það sé þó aðeins misjafnt eftir landshlutum. Þokkalega mikið sé af rjúpu á Vestfjörðum og Vesturlandi og þar séu tvö til þrjú ár í lágmark. Á öllu Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi sé stofninn alveg við lágmark og lítið af rjúpu í þeim landshlutum. „En svona til lengri tíma litið, eins og ég sagði þá er margt mótdrægt rjúpunni og stofninum hefur verið að hnigna, ég held að við getum fullyrt það.“

Niðurstöðurnar til Umhverfisstofnunar

Veiðistofn rjúpunnar er metinn 248 þúsund fuglar og niðurstaða Náttúrufræðistofnunar er að veiðin verði ekki umfram níu prósent af veiðistofni. Þetta mat er nú hjá Umhverfisstofnun sem svo skilar Umhverfisráðuneyti tillögum að fyrirkomulagi rjúpnaveiða í haust.