Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Eðlilegt að horfa til stöðunnar á spítalanum“

Mynd: Sigríður Gunnarsdóttir/Landsp / Sigríður Gunnarsdóttir/Landsp
Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum tekur undir neyðarkall starfsfólks bráðamóttökunnar og segir eðlilegt að horfa til stöðunnar á Landspítalanum við mat á því hvort rétt sé að slaka á sóttvörnum.

Þolmörk spítalans til skoðunar

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í Kastljósi í gær að Landspítalinn þurfi að svara því hver þolmörk hans séu áður en hann ráðleggi frekari tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum. Taka þurfi tillit til stöðunnar á spítalanum þegar inflúensa og RS-vírus byrja að ganga.

Sjá einnig: Tilslakanir ráðast á Landspítalanum

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir eðlilegt að horfa til stöðunnar á Landspítalanum við mat á því hvort rétt sé að slaka á sóttvörnum. Rætt var við hana á Morgunvaktinni á Rás1 í morgun. Hún segir að spítalinn þurfi að færa fjölda fólks til í starfi til að bregðast við faröldrum og það bitni óhjákvæmilega á annarri starfsemi hans. „Við þurfum náttúrulega að svara því fyrir okkur sem samfélag, ef við erum að fara í langvarandi viðbragð, erum við þá tilbúin til þess að eiga ekki aðgang að annarri heilbrigðisþjónustu. Svo þurfum við líka að hafa getu fyrir ákveðinn fjölda af gjörgæsluinnlögnum, innlögnum á legudeildir og svo framvegis. Ég held það sé fullkomlega eðlilegt að líta til Landspítalans til að skoða hver geta samfélagsins er til að bregðast við svona faraldri.“ 

Sigríður vildi ekki svara því hvort Landspítalinn gæti tekist á við faraldur eins og staðan er núna. „Við liggjum bara yfir því hvernig þessi sviðsmynd lítur út og forstjóri hefur gefið það út að við munum gefa okkur tíma til þess að fara yfir það.“ 

Tekur undir neyðarkall hjúkrunarfræðinga

Í vikunni lýstu hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökunni því yfir að starfsfólk væri yfirkeyrt á vöktum mánuðum saman og öryggi sjúklinga  ógnað. Yfirlæknir bráðamóttökunnar líkti ástandinu á heilbrigðiskerfinu við sturlun. 

Sigríður tekur undir með starfsfólki deildarinnar. „Þetta er mjög alvarleg staða og ég tek undir þessi orð.“

Samfélagið bregðist öldruðum

Hún segir að mannekla og skortur á úrræðum fyrir aldraða sé rót vanda bráðamóttökunnar og lengi hafi verið vitað í hvað stefndi. Öldruðum fjölgi hratt á Íslandi, hraðar en víða annars staðar þar sem við erum ung þjóð, en úrræði skorti. „Birtingarmyndin á þessu vandamáli verður oft á tíðum á bráðamóttökunni þegar myndast þar kúfar sem hafa verið algerlega óásættanlegir bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk.“

Hún segir fjölgun aldraðra nú og í fyrirsjáanlegri framtíð kalla á mikla uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, hvert hjúkrunarheimili sem bætist við dragi úr kúfnum tímabundið. „Þetta eru stærstu notendur heilbrigðisþjónustunnar og við erum í raun að bregðast öldruðum með að undirbúa okkur ekki fyrir það.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Spítalinn hafi bætt sig en upplifun starfsfólk breytist ekki

Sigríður nefnir líka skort á hjúkrunarfræðingum. Hvoru tveggja séu þetta mál sem krefjist langtímahugsunar. Hún segir starfsfólk spítalans upplifa að það sé alltaf að hlaupa og ekkert breytist, en það sé þó ekki alveg rétt. „Eiginlega alls ekki því spítalinn hefur breyst gríðarlega mikið á undanförnum árum, við höfum verið að breyta þjónustunni svo mikið og auka framleiðni. Við höfum verið að færa sjúklinga sem áður lágu kannski í viku eða tíu daga á legudeild inn á dagdeild, það gerir okkur kleift að taka aðra inn á legudeildirnar. Það sem truflar myndina er að það kemur alltaf nýr maður inn í hitt rýmið vegna þess að það er svo mikil aukning á þjónustuþörf í samfélaginu, Íslendingum hefur fjölgað um tugi þúsunda á síðustu árum plús það að við höfum verið með milljónir erlendra ferðamanna.“ 

Spítalinn hafi stytt meðallegutíma en vegna þess að uppbygging hjúkrunarheimila og annarra úrræða haldi ekki í við að tryggja þjónustu sé þetta birtingarmyndin gagnvart starfsfólkinu. „Að það bæti bara alltaf í,“ segir Sigríður.