Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vogar í sameiningarhug - 4 sveitarfélög til skoðunar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Sveitarfélagið Vogar skoðar nú hug íbúa til þess að sameinast öðru sveitarfélagi. Fjórir eða jafnvel fimm valmöguleikar eru til skoðunar og verða kynntir á íbúafundi í kvöld. Bæjarstjóri segir margar áskoranir fram undan fyrir fámennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum. 

Stjórnendur hjá sveitarfélaginu hafa skoðað hugsanlega sameiningarkosti með ráðgjafa. Sveitarfélagið Vogar er næst landmesta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær yfir Vatnsleysuströnd og bæinn Voga. Íbúar eru rúmlega þrettán hundruð talsins. Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri segir að íbúum verði í kvöld kynnt niðurstaða úr vinnustofum. Þá verði einnig kallað eftir sjónarmiðum íbúa. 

„Um það hvað hugsanlega kunni að skipta þá mestu máli komi til þess að það verði farið í sameiningarviðræður. Það er sem sagt annars vegar verið að kalla eftir þessum sjónarmiðum og hins vegar að kynna valkostina sem er búið að skoða,“ segir Ásgeir.

Aðallega snúist málið um að skoða þá valkosti sem Vogar eiga lögsögumörk við. Það er að segja Hafnarfjörð, Grindavík og Reykjanesbæ. Þá eigi Vogar í miklu samstarfi við Suðurnesjabæ og því verði það fjórði valkosturinn. Hugsanlega verði fimmti valkosturinn ræddur í kvöld en ekki sé unnt að greina frá honum að svo stöddu.

En hvers vegna ættu Vogar að vilja sameinast öðru sveitarfélagi? 

„Það er einmitt tilgangurinn með þessari vinnu, það er að greina valkostina. Það má heldur ekki gleyma því að einn valkosturinn er sá að gera akkurat ekki neitt í því og vera bara áfram sjálfstætt sveitarfélag. Þannig að við viljum með þessari vinnu fyrst og fremst greina styrkleika og veikleika, tækifæri og ógnanir sem fæslust í því að fara í þessa valkosti sem í boði eru. Því er hins vegar ekkert að leyna að við erum fámennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum. Hér eru ekki nema rúmlega 1300 íbúar  og með auknum kröfum til stjórnsýslunnar og auknum verkefnatilfærslum frá ríki til sveitarfélaga þá eru sífellt gerðar meiri kröfur um bæði sérfræðiþekkingu og meiri slagkraft. Það er svona einn angi af þessu máli að velta fyrir sér hvort þjónustu við íbúa sveitarfélagsins sé betur fyrir komið í stærri rekstrareiningu til dæmis,“ segir Ásgeir.