Súpum seyðið af fyrirhyggjuleysi fyrri ára

14.10.2021 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Fagráð í bráðahjúkrun á Landspítala hefur sent frá sér áskorun til framkvæmdastjórnar spítalans þar sem vakin er athygli á fráflæðivanda á bráðamóttöku og spítalinn hvattur til að bregðast við.

Í áskoruninni segir að að jafnaði dvelji 20-44 sjúklingar á bráðamóttöku sem búið er að ákveða að þurfi að leggjast inn á legudeildir spítalans, en komast ekki að. Ástæðan of fá pláss á legudeild.

Umræða um fráflæðivanda spítalans er síður en svo ný af nálinni. Raunar má segja að hún sé eitthvert sígildasta fréttamál landsins. En þrátt fyrir það hefur staðan ekki batnað síðustu árin, heldur síður en svo.

Fyrir fimm árum sendi fagráðið frá sér svipaða ályktun en í henni sagði að um 12-20 legudeildarsjúklingar dveldu að jafnaði á bráðamóttöku. Vandamálið hefur því um tvöfaldast á fimm árum.

Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir prófessor er formaður Fagráðs í bráðahjúkrun. Í samtali við fréttastofu segir hún að spítalinn hafi síðustu ár verið að súpa seyðið af skipulagsmistökum fyrri ára. Skort hafi fyrirhyggju.

Hún segir að mannfjöldaspár síðustu tíu til tuttugu ára ásamt tölfræði um þau legurými og hjúkrunarrými sem voru í landinu, hefðu átt að sýna þörfina á frekari úrræðum skýrt.

Landspítali hefur sett sér það markmið að allir sjúklingar sem leita á bráðamóttöku komist inn á legudeild á innan við sex klukkustundum, en í yfirlýsingunni segir að það markmið náist aðeins í 24-28% tilvika.

Fagráðið krefst þess að staðið verði við sex klukkustunda markmiðið. Til þess þarf að opna fleiri legurými á spítalanum, auka viðbótarúrræði við hjúkrun og þjónustu í samfélaginu og opna fleiri hjúkrunarrými.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV