Kona lést í bruna í Hafnarfirði í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Kona á sjötugsaldri lést eftir að eldur kom upp í íbúð í Hafnarfirði í nótt, en slökkviliðið fékk tilkynningu um eld rétt fyrir klukkan tvö. 

Slökkvilið fékk fregnir af því að kona væri inni í íbúðinni þegar það kom á staðinn. Reykkafarar voru sendir inn í íbúðina og fannst konan fljótlega þar inni. Hún var úrskurðuð látin á vettvangi.

Samkvæmt tilkynningu frá slökkviliðinu gekk greiðlega að slökkva eldinn, en reykur barst í aðrar íbúðir. Íbúar fengu aðstoð Rauða krossins með gistingu og áfallahjálp.

Eldsupptök eru ókunn á þessari stundu, en lögregla fer með rannsókn málsins.

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV