Kallar málflutning Þórólfs tilhæfulausan hræðsluáróður

Mynd með færslu
 Mynd:
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir löngu tímabært að endurheimta takmarkalaust samfélag og eðlilegt líf og vill að öllum sóttvarnatakmörkunum verði aflétt strax. „Er ekki komið nóg af þessum tilhæfulausa hræðsluáróðri?“ Spyr Hildur á Facebook-síðu sinni.

Þórólfur velti því upp í viðtali við RÚV í gærkvöld að hugsanlega kynni RS-veiran og inflúensa að setja strik í reikninginn við afléttingar á sóttvarnatakmörkunum. Aflétta yrði takmörkunum smám saman og mikilvægt væri að draga lærdóm af bakslaginu í sumar.

Áhyggjur Þórólfs af árstíðabundnu flensunni eru svipaðar og hjá kollega hans í Bretlandi sem sagði í viðtali við BBC um helgina að margt væri að varast í vetur. Fólk gæti orðið mjög veikt ef það sýktist bæði af flensunni og COVID-19.  Almenningur væri óvenju berskjaldaður fyrir hinni venjulegu flensu vegna þeirra sóttvarnaaðgerða sem gripið var til í faraldrinum.

Þórólfur vildi í byrjun mánaðarins að núgildandi aðgerðir giltu í heilan mánuð en heilbrigðisráðherra féllst ekki á það og ætlar að endurskoða þær í næstu viku.

Á Norðurlöndum hefur samkomutakmörkunum verið aflétt að öllu leyti og í nýju minnisblaði sem kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar í vikunni kom fram að hættan á óviðráðanlegum faraldri hefði minnkað.  Forsætisráðherra sagði í viðtali við fréttastofu í gær að tímabært væri að ræða næstu afléttingar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sagði á Twitter í gær að ekki væri hægt að rökstyðja takmarkanir á frelsi fólks með inflúensu og RS-vírus. „Afléttum öllu,“ skrifaði ráðherrann.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tekur í sama streng á Facebook síðu sinni. „Þátttaka í lífinu hefur alltaf verið hættuspil, en stærsta aðsteðjandi ógnin við líf og heilsu fólks er ekki farsótt, nú þegar 90% fullorðinna hafa verið bólusettir gegn kórónaveirunni.“ Veitingamenn, listamenn og fjölmargir aðrir hefðu orðið fyrir óbætanlegu tjóni af völdum takmarkana sem þjónuðu ekki lengur almannahagsmunum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV