Fréttir: Voðaverk í Noregi og eldsvoði í Hafnarfirði

14.10.2021 - 11:59
Karlmaður á fertugsaldri hefur játað að hafa orðið fimm manns að bana og sært tvo til viðbótar í gær í bænum Kóngsbergi í Suður-Noregi. Til voðaverkanna notaði hann boga og örvar og hugsanlega fleiri vopn. Viðbúnaðarstig vegna mögulegra hryðjuverka hefur verið hækkað í landinu.

Ný ríkisstjórn tekur við völdum í dag í skugga voðaverkanna í Kongsberg í gær. Ræður vegna stjórnarskiptanna hafa einkennst af sorg og alvöru.

Kona á sjötugsaldri lést eftir að eldur kom upp í íbúð í Hafnarfirði um tvöleytið í nótt. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar brunann.

Minnkandi framboð af íbúðum til sölu hefur dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði. Kaupsamningum fækkar og veltan minnkar en verð hækkar áfram. 

Forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu Landspítalans er sammála sóttvarnalækni um að RS-veira og inflúensa geti sett strik í reikninginn við afléttingar á sóttvarnatakmörkunum. 
 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV