Íslenskir „hommabanar“ ógna hinsegin fólki

Mynd með færslu
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78 Mynd:
Svo virðist sem hópur fólks stundi það að áreita hinsegin fólk, einkum homma og transfólk með símtölum. Fatlaðir hafa einnig orðið fyrir barðinu á ásóknunum. Formaður Samtakanna '78 segir skorta úrræði gegn hatursglæpum í íslenska löggjöf.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78 segir þá sem þetta stunda greinilega vilja vekja ótta meðal minnihlutahópa. Hún segir ekki vitað nákvæmlega hverjir séu á ferðinni en að unnið sé að rannsókn á því.

Hringt er eða skilaboð send í gegnum samskiptaforrit úr fölsuðum aðgöngum og hótað ofbeldi, jafnvel lífláti. Þorbjörg hvetur fólk sem verður fyrir áreiti að tilkynna það til lögreglu og láta Samtökin '78 vita. Þannig geti samtökin stigið inn þegar þeirra er þörf. 

„Í raun alltaf að láta okkur vita verði fólk fyrir hatursorðræðu, eða hatursglæp af einhverju tagi sem tengist hinseginleika. Það skiptir okkur miklu máli, bæði að hafa yfirsýn yfir hvað er í gangi og líka geta boðið stuðning og ráðgjöf. Bæði persónulega og lögfræðiráðgjöf.“ 

„Hommabanar“ segjast drepa hommann í mönnum

Á samfélagsmiðlum ganga nú upptökur af samtölum þar sem karlmenn segjast tilheyra Hommabönum, þeirra hlutverk sé ekki að drepa homma -heldur að drepa hommann í viðmælendum sínum.

Í einni upptöku má heyra karlmann segjast vera í hommabanasveitinni. „Það er ekkert hobbí ef ég fæ borgað fyrir að buffa hommana.“  Hann segist fá borgað fyrir að vera í sveitinni. 

„Við höfum ekki drepið neinn homma en við höfum, þú veist það er meira verið að drepa hommann í þér, fattarðu? Að troða þér aftur inn í skápinn. Það er ekki að drepa manneskjuna heldur að drepa hommann, þess vegna erum við hommabanar.“

Aðspurður segist maðurinn gera sér grein fyrir að hann sé að fremja hatursglæp með orðum sínum. Í öðru slíku samtali virðist viðmælandinn vera undir áhrifum áfengis. 

„Þegar menn eru að drepa. Drepa, drepa, drepa, drepa. Við drepum ekki hommana. Nei við drepum ekki hommana, það er bara ekki leyfilegt. Bara svona smá að buffa þá. Aðeins svona smá svona. Bara svona þetta venjulega.“

Viðvarandi mannréttindabarátta

Þorbjörg Þorvaldsdóttir bendir á að andúð og ofbeldi gegn samkynhneigðum, ekki síst transfólki, fari vaxandi í ýmsum nágrannalöndum okkar. Þetta endurspegli fordóma og gamalgrónar hugmyndir um hvað það sé að vera karl og kona. 

Hatursglæpir í garð transfólks hafi til dæmis aukist á Bretlandi en það verði til þess að ofbeldi aukist í garð þeirra hópa sem hafa verið hvað lengst í sviðsljósinu. 

„Þegar hatursglæpir aukast gegn einum hópi hinsegin fólks aukast þeir gegn öllum.“

Þorbjörg segir að sagan sýni að bakslag geti alltaf orðið í mannréttindabaráttu og að dæmi frá öðrum löndum sýni að mjög illa geti farið, enda verði minnihlutahópar fyrir ofbeldi á Íslandi. 

„Eðlið er annað. Við sjáum svona meira í gegnum internetið. Því miður er þetta ekki búið. Það þarf endalaust að endurnýja þessa baráttu vegna þess að einhvern veginn klárast hún aldrei alveg.“

Þorbjörg segir fólk sannarlega þurfa að vera vakandi fyrir því sem geti gerst. Hún segir enga eiga að fela sig og hverjir þeir séu. Vandinn sé sá að aldrei sé hægt að vera viss um hverju fólk sem hefur sig í frammi gegn minnihlutahópum tekur upp á.

„Vonandi eru þetta bara einhverjir að reyna að vera fyndnir, en auðvitað er afleiðingin sú að þetta vekur ótta. Það er ekki úr lausu lofti gripið að fólk, hinsegin fólk, verður fyrir ofbeldi. Þess vegna þarf að taka þetta mjög alvarlega.“

Skortir löggjöf vegna hatursglæpa

„Því miður verður fólk fyrir hatursglæpum á Íslandi dagsins í dag og fólk verður fyrir ofbeldisglæpum. Ekki aðeins munnlegu aðkasti heldur líkamlegu ofbeldi. Við vitum alveg hvernig það getur endað. Auðvitað þurfum við alltaf að óttast það og búa til samfélag þar sem þetta er ekki möguleiki.“

Þorbjörg segir mjög mikilvægt að setja löggjöf sem tekur sérstaklega á hatursglæpum, en allt lagaumhverfi skorti varðandi þá.

„Í íslenskum lögum er engin sérstök hatursglæpalöggjöf fyrir utan hatursorðræðu og áróður. Þegar kemur að annars konar ofbeldi grípur fólk í tómt. Það yrði eins farið með mál vegna uppgjörs í undirheimum og hatursglæp,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir.

„Mikilvægt er að það sé farið í átak til þess að koma í veg fyrir hatursglæpi og til þess að stöðva þetta miklu fyrr.“