Óvissustigi aflétt í Útkinn

11.10.2021 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra hefur aflétt óvissustigi í Útkinn í Þingeyjarsveit. Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands telji ekki lengur ástæðu til viðbúnaðar vegna skriðuhættu. Góð veðurspá er næstu daga.

Alls féllu um fjörutíu skriður í Útkinn í vatnsveðri um þar síðustu helgi. Nokkra bæi þurfti að rýma og bændur fengu fylgd björgunarsveita til að fara heim tvisvar sinnum á dag til að mjólka kýr og sinna öðrum skepnum. Bærinn Björg varð verst úti. Hreinsunarstarfi er ekki lokið.