Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Karlar: 19 - Konur: 1

Mynd: Kristján Ingvarsson / RÚV
Staðan er nítján eitt fyrir karla þegar skoðað er hverjir stýra fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöllinni. Konur í atvinnulífinu flögguðu í hálfa stöng í dag til þess að vekja athygli á þessu ójafnvægi.

Fánar voru dregnir að húni á tveimur stöðum í Borgartúni í Reykjavík í dag. Á öðrum staðnum eru tvö flögg, annað með tölunni nítján og hitt með tölunni einn. 

„Jafnrétti er ákvörðun. En ákvörðun er bara skoðun ef við gerum ekki neitt, ef við framkvæmum ekkert. Það skiptir mjög miklu máli að Ísland sé að iðka jafnrétti öllum stundum því að við erum bara skástræti í alheimsþorpinu og þetta verður bara samkeppnisspurning mjög fljótt. Við þurfum á öllum okkar höndum að halda,“ segir Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu.

„Tölfræðin er leiðinleg og okkur er ekki að ganga eins og skyldi. Fyrir aftan mig eru fánar sem standa fyrir það að það eru nítján forstjórar sem eru karlkyns í Kauphöllinni en aðeins ein kona,“ segir Katrín Kristjana Hjartardóttir, í stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu.

Spölkorn frá blakta aðrir tveir fánar. Þeir tákna það að 77% stjórnenda íslenskra fyrirtækja eru karlar en 23% konur. 

„Sem er áhugavert af því að hér er löggjöf sem segir að hlutfallið eigi að vera 40 / 60 og á tíu árum frá því löggjöfin hefur verið sett höfum við hækkað um tvö prósent. Þannig að ég spyr: erum við heimsmeistarar í jafnrétti eða kannski heimsmeistarar kannski bara í hræsni. Þetta snýst ekki um að það sé ekki til nóg af hæfum konum. Það þarf bara að gefa þeim tækifæri og það þarf að ráða þær inn,“ segir Katrín.

„Og við getum miklu betur. Þannig að nú skulum við bretta upp ermar saman og verða verulega best í heimi í úrvalsdeild jafnréttismála okkur öllum til góðs og gæfu,“ segir Sigríður.