Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja lausn á málefnum Norður-Írlands

10.10.2021 - 06:28
Landamæri Norður-Írlands og Írska lýðveldisins í Fermanagh, bílar aka yfir ósýnileg landamæri
 Mynd: RTE - RTE, Írska ríkissjónvarpið
Það virðist stefna í harðar samningaviðræður á milli Breta og Evrópusambandsins vegna Norður-Írlands á næstu dögum. Samkvæmt útdrætti úr ræðu breska Brexit-ráðherrans David Frost ætlar hann að krefjast verulegra breytinga á samkomulaginu sem náðist um málefni Norður-Írlands.

Ræðuna flytur hann í Lissabon á þriðjudag, en á mánudag ætlar Evrópusambandið að birta eigin tillögur.

Þegar samið var um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu var lögð áhersla á að koma í veg fyrir lokuð landamæri á milli Norður-Írlands og Írlands. Norður-Írland, sem tilheyrir Bretlandi, er því enn í raun innan tollabandalags ESB í gegnum Írland. 

Sú staðreynd að Norður-Írar séu innan tollabandalagsins vekur mikla reiði meðal sambandssinna í Norður-Írlandi. Þeir segja samkomulagið tálma flutninga á milli meginlands Bretlands og Norður-Írlands, og grafi þannig undan stöðu ríkisins innan breska sambandsins. 

Að sögn AFP er hið svokallaða pylsustríð eitt helsta ágreiningsmálið. Evrópusambandið leggur blátt bann við flutningi á kældum kjötvörum og pylsum frá meginlandi Bretlands til Norður-Írlands. Bannið kemur til vegna nýrrar og slakari löggjafar varðandi hreinlæti við matvælaframleiðslu í Bretlandi eftir úrgönguna úr ESB.

Evrópusambandið er sagt reiðubúið að láta af pylsuflutningsbanninu. AFP segir Frost ætla að krefjast þess að fleiri lausnir verði á samningaborðinu í Brussel þegar málefni Norður-Írlands verða til tals. Hann ætlar að ítreka þá kröfu Breta um að svipta Evrópudómstólinn eftirlitshlutverki sínu með samkomulaginu, sem hann segir leiða til mikils valdaójafnvægis. Enginn ætti að efast um mikilvægi ástandsins, og ætlar Frost að segja að Bretar séu tilbúnir að rifta samkomulaginu ef lausnir séu ekki í sjónmáli.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV