Er hlédrægur og fámáll en nær að opna sig á sviði

Mynd: RÚV / RÚV

Er hlédrægur og fámáll en nær að opna sig á sviði

10.10.2021 - 14:15

Höfundar

Daníel Ágúst Haraldsson söngvari var í senn félagslyndur og einrænn unglingur sem varði miklum tíma heima hjá sér að mála olíuverk. Ef hann væri ekki tónlistarmaður hefði hann líklega lagt fyrir sig sálfræði en hans eftirlætishlutverk í lífinu er föðurhlutverkið.

Daníel Ágúst Haraldsson tónlistarmann þekkja flestir Íslendingar sem söngvara í hljómsveitunum NýDönsk og Gus Gus. Hann er frá Reykjavík en móðir hans á ættir að rekja austur og vestur. „Landfræðilega er ég þaðan en ég er voða mikið bara Reykjavíkurdrengur,“ segir Daníel sem var föstudagsgestur Mannlega þáttarins á Rás 1. „Mamma er frá Dalvík, þar bjuggu þau lengi afi og amma. Afi var læknir og amma ljósmóðir. Mamma er læknir og ég er af því sauðahúsi, kominn af læknum,“ segir Daníel. Hann dvaldi á yngri árum mikið fyrir norðan en fór líka í sveit í Svarfaðardal. „Þar var ég heilu sumrin í vinnu frá níu ára aldri, í þrjú sumur. Svo fór ég að vinna í fjölskyldufyrirtækinu Erninum. Afi var kaupmaður á Spítalastígnum með reiðhjólaverslun.“

Mikil vinna fyrir lítinn strák í sveitinni

Sveitalífið segir Reykjavíkurdrengurinn að hafi oft verið strembið, en lýsir því sem góðri reynslu. „Maður var bara í þrælavinnu frá því mjaltir byrjuðu eldsnemma um morguninn þar til síðustu stráin voru rökuð í baggana,“ segir hann. „Þetta var erfitt á köflum og mikil vinna fyrir lítinn strák en ég hafði gott af þessu.“

Gerði olíumálverk sem unglingur

Hann er alinn upp í Háaleitishverfi þar sem hann gekk í Álftamýrarskóla. Þar átti hann góða vini og var í senn félagslyndur og einrænn. „Þegar ég var unglingur dró ég fram striga og olíu og byrjaði að mála olíuverk í herberginu mínu. Þegar ég fermdist keypti ég mér rosa fínar hljómflutningsgræjur og mér fannst mjög gott að vera bara einn inni í herbergi að hlusta mjög hátt á tónlist,“ segir Daníel. Hann hlustaði helst á Phil Collins, Billy Joel og Ninu Simone en einnig klassíska tónlist sem hann fékk lánaða úr plötusafni móður sinnar.

Talar ekki mikið nema við sína nánustu

Daníel hefur sungið frá blautu barnsbeini og var í hljómsveitinni Chorus í Álftamýrarskóla. Með sveitinni tróð hann upp í Laugardalshöll á unglingsaldri og söng lagið Purple Rain með Prince. „Það var mjög stórt skref á mínum tónlistarferli,“ segir hann. Það fór ekkert á milli mála að hann ætti heima á sviðinu og þar leið honum vel. „Mér hefur alltaf liðið vel á sviði. Ég er frekar hlédrægur fyrir utan það en þegar ég kem á sviðið næ ég að opna mig.“ Sjálfur segist hann ekki góður í að segja sögur og hann kveðst ekki tala mikið nema við sína nánustu. „En þegar maður syngur þessi lög fær maður að segja sögur og mér finnst það skemmtilegt hlutverk. Að vita hvað ég á að segja og segja það eins vel og ég get.“

Hefði getað orðið sálfræðingur

Það var hins vegar hálfgerð tilviljun að tónlistin yrði fyrir valinu hjá Daníel. Hann segist hafa haft áhuga á ýmsu og sér fyrir sér að hann hefði til dæmis getað orðið sálfræðingur á andlegu og heimspekilegu nótunum. Penslana sem hann notaði mikið á unglingsárunum er hann þó hættur að grípa í. „Ég er bara að skapa á öðrum vettvangi, að semja músík og syngja. Ég hef látið pensilinn eiga sig síðan ég var fjórtán ára.“

Kynntust í Norðurkjallara og stofnuðu Nýdönsk

Nýdönsk varð til þegar Daníel var í MH og Björn Jörundur í MR. Vinur Daníels úr Chorus, Bergur Már Bernburg, dró hann á hljómsveitaræfingu í Norðurkjallara MH og þannig varð sveitin til. „Hljómsveitin var stofnuð 1987 en fyrsta platan kom út 1989,“ segir Daníel. Lagið Hólmfríður sló eftirminnilega í gegn og kom sveitinni á kortið. „Þetta gekk allt rosalega vel frá upphafi og fyrsta platan fór í gullsölu.“ Jón Ólafsson og Rafn Jónsson stýrðu upptökum á fyrstu plötunni og í kjölfarið gengu þeir og Stefán Hjörleifs til liðs við bandið.

Lifibrauð að ferðast um og spila

Hljómsveitin GusGus varð svo til árið 1995 og var stofnuð í Reykjavík. Hún var upprunalega hugsuð sem kvikmyndaverkefni og kom fram í stuttmyndinni Nautn. Síðan hefur hún starfað og notið mikilla vinsælda um allan heim, er samkvæmt Daníel Ágústi vinsælust í Mexíkó, Póllandi, Þýskalandi og Ameríku. „Okkar lifibrauð er að ferðast um og spila,“ segir hann um sveitina sem hefur tekið töluverðum breytingum í gegnum árin. Daníel tók sér sjálfur hlé frá hljómsveitinni í nokkur ár og nú hafa horfið á braut stofnmeðlimir, einhverjir hafa komið og farið en nú skipa hljómsveitina þau Daníel, Birgir Þórarinsson eða Biggi Veira og Margrét Rán söngkona.

Föðurhlutverkið í forgangi

Þegar Daníel er ekki að sinna tónlist er föðurhlutverkið í forgangi hjá honum. Hann á eins árs dreng og tvær dætur sem hann eignaðist að eigin sögn með löngu millibili. Eitt það skemmtilegasta sem hann gerir er að fara í sund. „Það eru forréttindi að fá að baða sig í svona fínu vatni og góðri aðstöðu. Það var hræðilegt í COVID að komast ekki í sund, mér leið ekki vel með það,“ segir Daníel. Hann stundar einnig pilates og segir að sú hreyfing snúist um að hafa stjórn á hreyfingum og styrkja kjarna líkamans. „Ef þú ert með sterka miðju og kjarna þá blómstrar líkaminn,“ segir hann. Tónlistina lofar hann að halda áfram að senda frá sér um ókomna tíð, allavega „eins lengi og ég hef gaman að því og forvitnin rekur mig á skemmtilegar slóðir,“ segir hann að lokum.

Rætt var við Daníel Ágúst í Mannlega þættinum á Rás 1. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.