Meinlaus list valdi mannkyni ómældum skaða

Mynd: Kiljan / RÚV

Meinlaus list valdi mannkyni ómældum skaða

08.10.2021 - 14:38

Höfundar

Chimamanda Ngozi Adichie, sem sló í gegn á nýliðinni Bókmenntahátíð í Reykjavík, er uggandi yfir þróun listsköpunar á okkar tímum.

Chimamanda Ngozi Adichie er einn þekktasti rithöfundur heims um þessar mundir. Hún er fædd í Nígeríu og hefur verið ötul talskona mannréttinda og kynjajafnréttis. Hún sló í gegn árið 2006 með bókinni Hálf gul sól, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2008. Nýverið kom út eftir hana á íslensku smásagnasafnið Það sem hangir um hálsinn.

Hún hélt fyrirlestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík, sem fram fór um miðjan september, og fjallaði þar um skáldskap, femínisma og það að snúast hugur. „Ég tel þessa hluti tengjast og ég ræddi um hve mikilvægt það er að við segjum sögur, sögur af fólki. Ég kem úr veröld rithöfundarins og skáldskapur er ást mín, bókmenntirnar ástir mínar. En ég skipti mér líka af stjórnmálum. Svo ég tel að við getum samþætt hvort tveggja, að við þurfum sögur til að skilja hve mikilvægt það er að vilja veröld jöfnuðar og réttlætis.“

Egill Helgason ræddi við rithöfundinn í Kiljunni á RÚV.

Hún hefur verið gagnrýnin á það sem kallað hefur verið útilokunarmenning. Í sumar birti hún umtalaða ritgerð á vefsíðu sinni um fyrirbærið, þar sem hún sagði ungt fólk á samfélagsmiðlum skorta samkennd og væri að kafna úr skinhelgi.

„Útilokunarmenningin, hugtakið sjálft hefur fengið margvíslega merkingu en þegar ég skrifaði um það sagði ég hvað mér bjó í brjósti, að það fór hraðbyri um hin frjálslyndu Vesturlönd, sem herðast í ósveigjanleika gagnvart fjölþættri sýn á hvað eina. Svo er það þessi þvingaði rétttrúnaður, sem er ákveðin aðferð til að ræða hlutina og annað tungutak sem verður að beita. Sé það ekki gert er maður víttur, og framar öllu, sé því ekki beitt, þá eru víturnar siðapredikun. Svo þetta snýst ekki um ranga orðanotkun heldur er maður siðferðilega vond manneskja.“

Þessa þróun telur hún varhugaverða. „Ég tel það mjög hættulegt og alveg hræðilegt fyrir listir, afleitt fyrir bókmenntirnar því nú skelfist fólk svo mjög að segja eitthvað rangt að það segir ekki neitt.“

Hún óttast það að næstu tvo áratugi, ef ekki verði rætt opinskátt um þetta, verði list og gervöll skapandi framleiðsla, einkum á Vesturlöndum, of meinlaus og „hugmyndafræðilega rétt“. Þetta myndi valda mannkyni ómældum skaða, að hennar sögn. „Að listin segi okkur ekki neitt um okkur sjálf, sem listir og bókmenntir eiga að gera. Ég segi það af því ég tel það mjög mikilvægt að skilja margvísleg sjónarhorn, að vera velviljaður. Það er frábært að vera vænn og góður. En við getum ekki í nafni þess beðið fólk um að ekki bara ritskoða aðra heldur líka okkur sjálf. Það finnst mér ógnvænlegt.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Femínisti áður en hún vissi að orðið væri til