Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísland og Armenía skildu jöfn á Laugardalsvelli

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Ísland og Armenía skildu jöfn á Laugardalsvelli

08.10.2021 - 18:10
Ísland og Armenía skildu jöfn 1-1 í undankeppni HM karla í fótbolta í kvöld. Ísak Bergmann Jóhannesson gerði mark Íslands sem gerir hann að yngsta markaskorara í sögu karlalandsliðsins.

Íslenska liðið var meira sannfærandi stóran hluta fyrri hálfleiks en tókst þó ekki að skapa sér mörg góð færi. Höggið kom á 35. mínútu þegar Kamo Hovhannisyan kom gestunum í forystu. Íslenska liðið var ósátt því það var nokkuð ljóst að Ísland átti að fá hornspyrnu þegar sókn Armena hófst. Armenar leiddu því 1-0 í hálfleik. Á 77. mínútu jafnaði Ísak Bergmann metin fyrir Ísland eftir laglega sókn íslenska liðsins. Ísak varð með því sá yngsti til að skora í A-landsleik karla fyrir Ísland en hann varð 18 ára í mars á þessu ári.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og niðurstaðan því jafntefli. Ísland er nú með 5 stig í riðlinum og áfram í næst neðsta sæti riðilsins. Armenía er í þriðja sæti með 12 stig, jafn mikið og N-Makedónía í öðru sætinu. Ísland mætir Liecthenstein í næsta leik á mánudaginn kemur.