Sýningin er sú fimmta í sýningaröð Kjarvalsstaða þar sem rýnt er í feril áhrifamikilla listamanna. Sýningarstjóri er Ólöf Kristín Sigurðardóttir. Guðný Rósa á ríflega 20 ára feril að baki, hún lærði við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í Brussel, þar sem hún býr og starfar. Að sögn Guðnýjar er hæglæti og ró mikilvægur þáttur í verkum hennar og áhrifum þeirra á viðtakendur. „Ég held að það sé mikilvægt og ég byrja þess vegna á þessari línu, að hægja ferð. Ég held að það skipti mig öllu. Bara stöðva, að sjá, ég held að þú getir misst af verkunum mínum ef þú labbar hratt en ef þú tekur tíma þá gerist eitthvað annað,“ segir hún.
Aldarfjórðungur undir
Ólöf Kristín segir verk Guðnýjar Rósu hafa sterk sérkenni. „Verk hennar byggja mjög mikið á hennar persónulegu upplifun, hennar tilfinningalegu nálgun við umheiminn og sjálfa sig. Hennar ferill spannar fjórðung úr öld, 25 ár, og verkin eru frá þeim tíma,“ segir hún.