Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ratleikur, dans og endalaus uppgötvun

Mynd: Menningin / RÚV

Ratleikur, dans og endalaus uppgötvun

06.10.2021 - 10:49

Höfundar

„Ég held að snertingin sé kannski það sem tengir þetta allt,“ segir Guðný Rósa Ingimarsdóttir listamaður. Yfirlitssýningin opus – oups með verkum hennaropnaði nýverið á Kjarvalsstöðum.

Sýningin er sú fimmta í sýningaröð Kjarvalsstaða þar sem rýnt er í feril áhrifamikilla listamanna. Sýningarstjóri er Ólöf Kristín Sigurðardóttir. Guðný Rósa á ríflega 20 ára feril að baki, hún lærði við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í Brussel, þar sem hún býr og starfar. Að sögn Guðnýjar er hæglæti og ró mikilvægur þáttur í verkum hennar og áhrifum þeirra á viðtakendur. „Ég held að það sé mikilvægt og ég byrja þess vegna á þessari línu, að hægja ferð. Ég held að það skipti mig öllu. Bara stöðva, að sjá, ég held að þú getir misst af verkunum mínum ef þú labbar hratt en ef þú tekur tíma þá gerist eitthvað annað,“ segir hún. 

Aldarfjórðungur undir

Ólöf Kristín segir verk Guðnýjar Rósu hafa sterk sérkenni. „Verk hennar byggja mjög mikið á hennar persónulegu upplifun, hennar tilfinningalegu nálgun við umheiminn og sjálfa sig. Hennar ferill spannar fjórðung úr öld, 25 ár, og verkin eru frá þeim tíma,“ segir hún. 

„Ég held að snertingin sé kannski það sem tengir þetta allt,“ segir Guðný Rósa Ingimarsdóttir listamaður. Yfirlitssýningin opus - oups með verkum hennaropnaði nýverið á Kjarvalsstöðum.
 Mynd: Menningin - RÚV
Guðný Rósa Ingimarsdóttir listamaður.

Sköpunarferli Guðnýjar Rósu er fjölbreytt. „Á vinnustofunni eru 10 borð held ég, ég hoppa á milli þeirra, ég er eiginlega alltaf standandi og er með búta á milli borða. Avo er ég kannski á einum stað farin að sauma en allt í stend ég upp og set setningu á ritvél. Það eru 3 ritvélar, 2 á borðinu núna, þannig að í rauninni er þetta bara eins og ratleikur, endalaust, dans, uppgötvun, finna brot, taka neikvætt rými, bæta úr, skera úr einu, setja í annað, sauma á svo snýr kannski ljósmynd sér í hring og þá gríp ég hana, sauma á flöt,“ segir hún. 

Hvíslandi styrkur

Heiti sýningarinnar er fransk-íslenskt. „Titill sýningarinnar er opus - oups og opus þýðir verk, sem getur vísað til þess að þetta er hennar verk, en oups-ið er skrifað upp á frönsku og það vísar til þess að Guðný hrærist í frönskum málheimi. Nálgun hennar við titla og við upplýsingagjöf um verkin er líka mjög sérstök, hún hefur mikil tengsl við sitt innra líf, það er einhvern veginn eins og hún sé listamaður sem nánast hvíslar. Það er ekki verið að hrópa heldur er þetta svona lágstemmt og hvíslandi en það er styrkur í því samt sem áður,“ segir Ólöf Kristín.

Snertingin tengir

Segja má að smáatriði, viðkvæm efni og varfærin meðhöndlun einkenni verkin öðru fremur. „Ég held að snertingin sé kannski bara það sem tengir þetta allt, línan í gegn, hvort sem það er þegar þú heldur á pappír og hvernig þú heldur á honum eða þegar að verk er eyðilagt sem búið er að byggja, eins og í vídjóverki þar sem ég vann teygjuverk og heklaði og svo kemur barnið og klippir af sömu natni þannig að byggja upp, brjóta niður, aftur upp og aftur. Ég held að snertingin sé kannski bara það sem tengir þetta allt,“ segir Guðný Rósa. 

opus - oups stendur til 16. janúar. Allar nánari upplýsingar má finna hér. 

„Ég held að snertingin sé kannski það sem tengir þetta allt,“ segir Guðný Rósa Ingimarsdóttir listamaður. Yfirlitssýningin opus - oups með verkum hennaropnaði nýverið á Kjarvalsstöðum.
 Mynd: Menningin - RÚV