Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lítið bókasafn í litlum vita í Hellisgerði

06.10.2021 - 19:21
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Börn og eldri menn tóku saman höndum í Hafnarfirði í dag til þess að glæða lestraráhuga bæjarbúa. Karlar í skúrnum smíðuðu bókavita og leikskólabörn vígðu hann með því að setja bækur í hann. Verkefnið er

Hópur eldri manna í Hafnarfirði er hluti af verkefninu Karlar í skúrnum en því er ætlað að auka þátttöku karla í félagsstarfi fyrir eldri borgara. 

„Karlar geta talað saman þegar þeir eru að vinna saman eða þagað saman. Við erum eiginlega með þrískiptingu hjá okkur. Það er akademían sem leysir lífsgátuna og situr í kaffi. Svo erum við með vélamennina sem eru að renna. Svo þar inn af er herbergi þar sem menn sitja og tálga. Menn sitja við hringborð og kallast riddarar hringborðsins. Þar geta menn þagað saman tímunum saman,“ Jón Bjarni Bjarnason, formaður Karlar í skúrnum.

Karlarnir brugðust við ákalli bæjarins um að útbúa bókakassa. Þeir ákváðu að láta hann líta út eins og vita enda viti í merki Hafnarfjarðar.

„Og þetta er árangurinn. Upphaflega datt mér í hug að hann yrði einhvers staðar inni. Þá hefði þetta orðið einfaldari smíði en hann er úti og það er mjög vandað til hans. Hann lekur ekki. Margir sem lögðu gjörva hönd að verki,“ segir Jón Bjarni.

Kassinn er við Hellisgerði og hann stóð ekki lengi auður því hópur barna kom með bækur að heiman. Bókavitinn var opnaður formlega í dag á upphafsdegi Bóka- og bíóhátíðar barnanna 2021 í Hafnarfirði. Bókakassinn er öllum opinn.

„Það verður gaman að sjá hvernig íbúar munu taka henni. Ég hef grun um það að henni verði tekið mjög vel og fólk muni koma hérna stríðum straumum að skila bók og taka aðra í staðinn,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Róbert Leo Ólafsson Granz var komin með bók sem mamma hans hafði eignast þegar hún var barn. En hvers vegna setti hann bókina í bókavitann?

„Af því að þetta er besta bókin.“

Bókavitinn hefur verið settur upp á horni Hellisgötu og Reykjavíkurvegar, við einn af nokkrum inngöngum í Hellisgerði, skrúðgarð Hafnfirðinga.