Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íbúafundir um mögulega sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd: Karen Rut Konráðsdóttir - RÚV
Í kvöld verða haldnir íbúafundir í Langanesbyggð og Svalbarðshreppi um mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Sameining ætti að vera auðveld rekstrarlega séð en taka þarf tillit til annarra þátta.

Ráðgjafi hefur metið sameiningarkosti

Frá því í febrúar hafa farið fram óformlegar viðræður á milli sveitarfélaganna tveggja um sameiningu. Út frá þeim viðræðum var ráðinn ráðgjafi sem hefur tekið saman upplýsingar um stöðu sveitarfélaganna og útbúið skýrslu um áhrif sameiningar. Sveitarstjórnirnar tvær stefna á formlegar viðræður en vilja kynna þessa vinnu fyrir íbúum og leyfa þeim að láta í ljós skoðun sína áður en þær hefjist. Fundirnir séu því mikilvægt fyrsta skref.

Skiptar skoðanir

Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti í Svalbarðshreppi, segist finna mikla jákvæðni meðal íbúa í sveitarfélaginu og gerir ráð fyrir að hægt verði að kjósa um sameininguna í byrjun næsta árs. 

Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti í Langanesbyggð, segist upplifa skiptar skoðanir um sameininguna. Hann segir að auðvelt sé að sameina sveitarfélögin rekstrarlega séð en taka þurfi inn aðra þætti sem tengjast hefðum og menningu. 

Fundirnir fara báðir fram í kvöld en verða tímasettir þannig að ráðgjafi sveitarfélaganna getur verið viðstaddur þá báða.