Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Níu þingmenn undirbúa álit um gildi Alþingiskosninganna

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Níu þingmenn hafa verið tilnefndir í undirbúningskjörbréfanefnd, sem fjallar um kærur vegna framkvæmdar Alþingiskosninganna.

 

Oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi hefur þegar kært framkvæmd alþingiskosninganna, og tveir frambjóðendur, Guðmundur Gunnarsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, ætla að kæra endurtalninguna í kjördæminu á morgun. Þau voru bæði inni eftir fyrri talninguna en duttu út af þingi eftir þá seinni.

Undirbúningskjörbréfanefnd fjallar um kærurnar og framkvæmd kosninganna, og undirbýr álit um það hvort kosningarnar teljist gildar og kjörbréf þingmanna verði samþykkt. Hin eiginlega kjörbréfanefnd verður síðan skipuð þegar þing kemur saman í fyrsta skipti, og skilar áliti byggðu á vinnu undirbúningskjörbréfanefndarinnar. Svo gæti farið svo að þing komi ekki saman fyrr en um næstu mánaðamót, eftir að kærufrestur vegna kosninganna rennur út, og þá fyrst verði úr því skorið hvort kosningarnar teljist gildar.  

Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari sagði í fréttum í gær að Alþingi ætti alltaf síðasta orðið um gildi kosninganna. Nefndarmennirnir sem flokkarnir hafa tilnefnt til að skera úr um það eru Birgir Ármannsson, Vilhjálmur Árnason og Diljá Mist Einarsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokk, Líneik Anna Sævarsdóttir og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir fyrir Framsóknarflokk, Svandís Svavarsdóttir fyrir Vinstri græn, Björn Leví Gunnarsson fyrir Pírata, Inga Sæland frá Flokki fólksins og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir Samfylkingu. Hvorki Viðreisn né Miðflokkurinn eiga fulltrúa í nefndinni, en Viðreisn hefur tilnefnt Hönnu Katrínu Friðriksson sem áheyrnarfulltrúa.