Vilius fór mikinn í marki Selfyssinga sem unnu FH

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Vilius fór mikinn í marki Selfyssinga sem unnu FH

28.09.2021 - 21:14
Selfoss og FH mættust í úrvalsdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Leikurinn er frestaður leikur úr fyrstu umferð þar sem Selfyssingar voru í Evrópuverkefni. Eftir slæma byrjun komu Selfyssingar sterkir til baka, Vilius Rasimas varði vel og liðið uppskar fjögurra marka sigur.

Selfoss töpuðu fyrir Fram í fyrsta leik sínum á tímabilinu en FH vann Gróttu. Heimamenn skoruðu fyrsta markið en þá tók við rosalegur kafli hjá Phil Döhler í marki FH-inga og Hafnfirðingar komust í 5-1

Selfoss náði að komast aftur inn í leikinn en á 21. mínútu fékk Jón Bjarni Ólafsson, leikmaður FH,  beint rautt spjald fyrir að fara í andlitið á Hergeiri Grímssyni. Vítakast var dæmt, Einar Sverrisson fór á punktinn fyrir Selfoss, skoraði og jafnaði í 10-10. Það voru svo Selfyssingar sem leiddu í hálfleik 14-12. Þeir byrjuðu seinni hálfleikinn betur áður en FH-ingar tóku við sér og einu til tveimur mörkum munaði á liðunum stærstan hluta seinni hálfleiks. Hafnfirðingar náðu Selfyssingum þó aldrei og þeir sigldu sterkum 27-23 sigri heim. 

Vilius Rasimas reyndist Selfyssingum drjúgur í markinu en hann varði 18 bolta. Einar Sverrisson var markahæstur í liði Selfoss með átta mörk en Ragnar Jóhannsson skoraði sex og Ísak Gústafsson fimm. Hjá FH-ingum skoraði Jóhann Birgir Ingvarsson fimm mörk og Ágúst Birgisson, Ásbjörn Friðriksson og Birgir Már Birgisson allir fjögur. 

Bæði lið fá verðugt verkefni í næstu umferð. Selfyssingar sækja Hauka heim og FH fara til Vestmannaeyja.