VG og Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi hjá krökkum

Mynd með færslu
 Mynd: Arna Rún Gústafsdóttir - KrakkaRÚV
Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn voru með mest fylgi í Krakkakosningum sem fram fóru samhliða þingkosningunum um helgina. Flestir flokkar fengu um 9 prósent út úr talningu.

Grunnskólabörn um allt land kusu sér alþingismenn í vikunni fyrir alþingiskosningar, í Krakkakosningum. Áður en gengið var til kosninga kynntu þau sér flokkana í líflegum innslögum fréttamannsins Magnúsar Sigurðar Jónassonar, sem einnig kynnti úrslit kosninganna á kosningavökunni á laugardag. Krakkakosningar eru samstarfsverkefni Umboðsmanns barna og KrakkaRÚV þar sem grunnskólabörn fá fræðslu um lýðræði, kosningar og framboð. Að endingu velja þau þann flokk sem þeim finnst standa upp úr.

VG og Sjálfstæðisflokkur efst en flestir í kringum 10%

Fremur jafnt fylgi flokkanna vakti athygli þegar úrslitin lágu fyrir. Enginn flokkur náði upp fyrir 20 prósent, fylgi sem Sjálfstæðisflokkur náði einn í kosningum fullorðinna. Hjá krökkum hrapar hann um rúm 10 prósent eða niður í rúm 13 prósent. Vinstri græn tróna á toppnum með rúm 17 prósent og eru því með svipað fylgi og Framsókn hjá fullorðnum. Flestir flokkar fylgja þar rétt á eftir með um 8 - 10 prósent. Sósíalistar náðu næstum 6 prósenta fylgi og því líklega fengið þingmann og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hefði verið nálægt því að ná inn manni með sinni frammistöðu.

Mynd með færslu
 Mynd: Arna Rún Gústafsdóttir - KrakkaRÚV
Úrslit Krakkakosninga 2021