Tíu dagar til að bjarga jólunum

28.09.2021 - 17:00
Bretland · Brexit · ESB · Spegillinn
Mynd: EPA-EFE / EPA
Það hefur borið á vöruskorti víða í Bretlandi undanfarið, veitingahús vantar starfsfólk og nú hefur eldsneytisskortur bæst við. Ástæðan er samfallandi áhrif veirufaraldursins og Brexit en það er engin skyndilausn í augsýn.

Vantar bensín í dælurnar en ekki í Norðursjóinn

Þessa dagana eru bensínstöðvar í Bretlandi ýmist án viðskiptavina, af því það er ekkert í dælunum eða, ef það er til bensín, þá eru þar langar biðraðir. Ástæðan er ekki olíuskortur, Bretar dæla enn upp úr Norðursjónum um 90 prósent af þeirri hráolíu, sem þeir nota. Vandinn er að koma eldsneytinu í dælurnar. Sama með tómar hillur í mörgum kjörbúðum. Aftur þetta, vandinn er að koma vörunum á áfangastað.

Brexit: evrópskir bílstjórar hættu að keyra til Bretlands

Í kringum Brexit, úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu í ársbyrjun 2020, hættu um tuttugu þúsund evrópskir bílstjórar að keyra hingað. Þetta gerðist ekki yfir nótt en í kringum Brexit fréttist að evrópskum bílstjórum þætti of mikið vesen að taka túra til Bretlands. Einfaldara að keyra innan vébanda ESB. Og margir bílstjórar sem höfðu búið hér, fluttu til síns heima, í Evrópu.

Brexit-áhrifin koma hægt og bítandi

Strax eftir Brexit var því farið að tala um að skortur á flutningabílstjórum yrði hliðaráhrif Brexit. En þetta hefur gerst hægt og bítandi þar til nú að biðraðir við bensínstöðvar afhjúpa vandann svo um munar.

Covid-áhrif á ökukennslu og -próf

Svo kom Covid. Ökukennsla og próf féllu niður. Í viðbót þá kosta ökuréttindin um fjögur þúsund pund, 700 þúsund krónur. Réttindin eru ekki flokkuð sem menntun og því enga námsstyrki þar að hafa. Réttindin einfaldlega of dýr fyrir marga sem annars gætu kannski hugsað sér að afla þeirra.

Jólakalkúnninn gæti orðið hörgulvara

En það vantar víðar starfsfólk en í útkeyrslu. Jólamaturinn hér, kalkún, gæti orðið hörgulvara af því það vantar starfsfólk í fuglabúin og sláturhúsin. Í veitingarekstri hafa menn kvartað hástöfum undanfarna mánuði um skort á starfsfólki. Allt er þetta algjörlega fyrirsjáanlegur vandi af því svo margir Evrópubúar hafa sinnt þessum störfum. Hérbúandi, eða komu reglulega í árstíðabundin störf.

Vandinn löngu fyrirsjáanlegur – ríkisstjórnin gerði ekkert

Ríkisstjórnin er nú sökuð um að hafa flotið sofandi að feigðarósi, vandinn löngu fyrirsjáanlegur. Ráðin frá ríkisstjórninni og ýmsum þingmönnum Íhaldsflokksins undanfarin misseri hafa verið að það þurfi bara að borga betur fyrir þessi störf og þjálfa fleira fólk. Hætta að reiða sig á ódýrt evrópskt vinnuafl. En launin hafa hækkað og það umtalsvert. Það breytir þó litlu því eftir sem áður vantar hæft fólk og þjálfun tekur tíma.

Ráðherra kennir bílstjórum um bensínskortinn

Þegar biðraðirnir í vikunni gerðu vandann svo sýnilegan kenndi George Eustice umhverfisráðherra almenningi um. Nóg bensín en fólk væri að kaupa eldsneyti að nauðsynjalausu.

Ummæli ráðherrans vöktu strax mikla gremju. Í kjölfarið sagði talsmaður forsætisráðherra að nei, skorturinn væri ekki neytendum að kenna.

Ríkisstjórnin hafnar Brexit-áhrifum – en aðrir eru ósammála

Ríkisstjórnin hefur ekki viljað tengja eldsneytis- og vöruskortinn við Brexit. En aðrir eru á öðru máli. Edwin Atema formaður sambands flutningabílstjóra í Hollandi var ekkert að skafa af því þegar hann ræddi við fréttakonu breska ríkisútvarpsins.

Evrópskir bílstjórar bjarga ekki Bretum úr sjálfskaparvítinu

ESB bílstjórar, sem við tölum við eru ekkert á leiðinni að taka að sér skammtíma vinnu til að hjálpa Bretum uppúr þessum skít, sem þeir skópu sjálfir, sagði Atema. Það kom á fréttakonuna, ekki alveg orðanotkun, sem breska ríkisútvarpið kýs en jú, boðskapurinn skilst, sagði hún.

Starfsmannaskortur átakamál innan ríkisstjórnarinnar

Starfsmannaskorturinn hefur verið átakamál innan stjórnarinnar. Sumir vilja leyfa Evrópubúum að vinna í Bretlandi, aðrir telja það stangast á við tilgang Brexit, sem átti meðal annars að fækka innflytjendum. Það er talað um að það vanti um hundrað þúsund flutningabílstjóra í Bretlandi. Stjórnin býður nú fimm þúsund dvalar- og vinnuleyfi til bílstjóra og 5500 leyfi til starfsfólks í hæsnabúum, hvort tveggja fram til jóla. Eigendur veitingahúsa, sem hafa kvartað mánuðum saman um starfsmannaskort, vilja nú líka ívilnun til að ráða fólk frá Evrópu.

Hringlandaháttur í ríkisstjórninni

En fleiri en bíleigendur örvænta. Um helgina var orðrómur um að ríkisstjórnin hygðist beita hernum til að keyra út olíu. Svo var það borið til baka en er nú aftur á dagskrá.

Formælendur smásöluverslunar segja að ríkisstjórnin hafi tíu daga til að bjarga jólunum, því það taki verslanir vikur og mánuði að safna jólaforðanum. Og bjarga jólamat eins og kalkún.

Brexit-sinnar nefndu ekki vöruskort 2016

Ef marka má undirtektir hollenskra bílstjóra gæti reynst erfitt að fá evrópskt starfsfólk til að snúa aftur til landsins, sem tilkynnti 2016 að það kærði sig ekki um evrópska innflytjendur. En reyndar: Brexit-sinnar nefndu það ekki 2016 að í Brexit gæti falist vöru- og eldsneytisskortur.