Skagfirskt hamfarapopp er ekkert grín

Mynd: Úlfur Úlfur / Hamfarapopp

Skagfirskt hamfarapopp er ekkert grín

28.09.2021 - 18:00

Höfundar

Útgáfa var með hressara móti síðustu helgi með nýjum útgáfum frá gleðisveitinni Baggalút og skagfirsku söngsveitinni Úlfi Úlfi, sem nú eru með Sölku Sól með sér. Önnur sem koma við sögu eru Gummi Tóta, Fríða Dís, Kul, K. Óla ásamt Salóme Katrínu, Albatross og súpergrúbbunni Lón.

Baggalútur - Ég á það skilið

Söng- og gleðisveitin Baggalútur hefur sent frá sér lagið Ég á það skilið eftir leiðtoga sveitarinnar Braga Valdimar Skúlason. Baggalútsgengið sem hefur verið undanfarið í léttkántrí og þjóðlagastíl með Káin, hefur nú söðlað um og er komin með suðrænan lúðrasveita blæ.


Gummi Tóta - Eyðieyja

Lagið Eyðieyja er það nýjasta úr smiðju tónlistarmannsins Guðmundar Þórarinssonar sem kallar sig Gumma Tóta. Lagið segir hann hreinskilið kassagítarpopp sent beint frá New York, þar sem hann spilar fótbolta með liðinu New York City FC. Upptökur fóru fram í Stúdíó Sýrlandi, hljóðblöndun og mastering var í höndum Fannars Freys Magnússonar og Finns Hákonarsonar.


Lón - Earthquake

Hljómsveitin Lón hefur sent frá sér sitt annað lag sem er lagið Earthquake eftir þá félaga Ásgeir Aðalsteinsson, Ómar Guðjónsson og Valdimar Guðmundsson sem skipa sveitina sem er ætlað að vera á aðeins lágstemmdari nótum en fyrri ævintýri kappanna.


Kul - In the Grey

Íslenska hljómsveitin Kul sendi frá sér nýtt lag í streymisveitur og á útvarpsstöðvar á föstudaginn, sem heitir Into the Gray og er fimmta lagið sem KUL gefur út. Hljómsveitina skipa þeir Heiðar Örn Kristjánsson, Helgi Rúnar Gunnarsson, Hálfdán Árnason og Skúli Gíslason og þess vegna má segja að KUL sé súpergrúbba því meðlimir sveitarinnar koma úr Botnleðju, Benny Crespo’s Gang, Sign og Legend.


K. Óla, Salóme Katrín- Heyra í þér

Vinkonurnar og listaspæjurnar K.Óla og Salóme Katrín hafa sent frá sér lagið Heyra í þér sem þær vilja meina að sé algjör banger. Í laginu heyra þær einmitt í hvorri annarri, skipuleggja heimsókn og eru stemmdar með léttvínsflösku í annarri og símann í hinni.


Fríða Dís - The Key To My Future

Fríða Dís Guðmundsdóttir hefur sent frá sér enn einn slagarann, lagið The Key To My Future eftir hana og Smára Guðmundsson. Fríða Dís syngur lagið auk þess að spila á bassa og rafmagnsgítar en Smári Guðmundsson aðstoðar hana við útsetningu.  Aðrir hjálparkokkar eru Stefán Örn Gunnlaugsson, Halldór Lárusson og Soffía Björg Óðinsdóttir.


Albatross - Næsta haust

Hljómsveitin Albatross sendi frá sér nýtt lag síðasta föstudag sem heitir Næsta haust,. Lag og texti eru eftir bassaleikara hljómsveitarinnar Valdimar Olgeirsson. Næsta haust er fjórða smáskífan af væntanlegri þröngskífu sem sveitin hefur unnið að síðustu misseri.


Úlfur úlfur og Salka - Hamfarapopp

Rappsveitin skagfirska Úlfur Úlfur sendi fyrir helgina frá sér lagið Hamfarapopp en þar grípur Salka Sól Eyfeld míkrófóninn og syngur. Hún hefur komið við sögu með sveitinni á tónleikum en þetta verður í fyrsta skipti sem henni verður þrykkt á plast en dúettinn vinnur nýrri plötu eftir að hafa verið í stuttri pásu.