Sextán flutt á sjúkrahús eftir sprengingu í Gautaborg

28.09.2021 - 09:07
Mynd: EPA-EFE / TT NEWS AGENCY
Fjórir eru alvarlega slasaðir eftir sprengingu við íbúðarhús í Gautaborg í Svíþjóð í morgun og sextán hafa verið fluttir á sjúkrahús, fólk á aldrinum tíu til áttatíu ára. Eldur kviknaði í þremur stigagöngum í kjölfar sprengingarinnar og nokkur hundruð íbúar í húsinu hafa verið fluttir þaðan.  

Sænska ríkisútvarpið greinir frá. Enn er ekki vitað hvað olli sprengingunni en á blaðamannafundi lögreglunnar kom fram að engin merki væru um gasleka eða aðrar náttúrulegar orsakir sprengingar. 

Slökkviliðið vinnur enn að því að reykræsta stigagangana og þær íbúðir sem reykur barst inn í. Um það bil fimmtíu slökkviliðsmenn frá sjö slökkvistöðvum vinna í húsinu. Mikla reyklykt leggur yfir hverfið og slökkviliðið biður íbúa í nágrenninu um að halda sig inni, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV