Rafmagn fór af Húsavík og nærsveitum

28.09.2021 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Rafmagnslaust var á Húsavík og í nærsveitum í um tíu mínútur á níunda tímanum í morgun vegna óveðursins sem gengur yfir landið í dag. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að fyrirtækið sé vel undirbúið, og hafi meðal annars fundað með veðurfræðingum, almannavörnum, Orkubúi Vestfjarða og Rarik í gær og í morgun.

„Við höfum verið að færa til mannskap. Við erum búin að manna tengivirkin okkar í Breiðadal og Hrútatungu. Það voru tengivirki sem fóru illa út úr óveðrinu 2019. Einnig verðum við líka með aukinn mannskap í stjórnstöðinni okkar og svo höfum við verið að skoða varaaflið, hvar það er staðsett og hvaða möguleika við höfum til að færa það til ef til þyrfti,“ segir Steinunn.

Nú í morgun fór Húsavíkurlína 1 milli Laxárvirkjunar og Húsavíkur út. Rétt áður hafði Laxárlína 1, milli Laxárvirkjunar og Húsavíkur farið út.

„Morguninn byrjaði með því að Húsavíkurlína 1 og Laxárlína fóru út. Það olli ekki miklu rafmagnsleysi. Það var rafmagnslaust í skamma stund á Húsavík í morgun. Morguninn byrjaði með hvelli,“ segir Steinunn.