Mikil fjölgun morða í Bandaríkjunum

28.09.2021 - 06:06
Mynd með færslu
Lögregla í Fíladelfíu. Mynd úr safni.  Mynd: Wikimedia Commons
Þó glæpum hafi almennt fækkað í Bandaríkjunum í fyrra frá árinu áður varð veruleg fjölgun morða á milli ára. Þrjátíu prósentum fleiri morð voru framin í Bandaríkjunum í fyrra en árinu áður, hefur Guardian eftir upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni FBI.

Alls voru framin að minnsta kosti 21.570 morð í Bandaríkjunum í fyrra, fimm þúsund fleiri en árið 2019. Alveg sama hvert er litið, í smábæjum, úthverfum eða stórborgum, alls staðar fjölgaði morðum. Yfir þrjú af hverjum fjórum þeirra voru framin með byssum.

Þetta er mesta fjölgun á milli ára frá því alríkislögreglan hóf að halda utan um tölfræði morða árið 1960. Morðum heldur áfram að fjölga í stórborgum á fyrri helmingi þessa árs, þó hún sé nokkuð hægari en í fyrra. Samkvæmt könnun sem gerð var í 29 borgum til júníloka hafði morðum fjölgað um 16 prósent frá því í fyrra. 

Sérfræðingar telja kórónuveirufaraldurinn eiga hlut að máli. Faraldurinn olli miklum tilfinningalegum og efnahagslegum óstöðugleika, sem bitnaði verst á samfélögum sem áttu í vandræðum fyrir. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV