Mamma kallaði mig litla forsætisráðherrann

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ég kom hérna inn í kringluna og fékk að ganga inn í þingsalinn. Ég bara hálf kiknaði í hnjánum yfir þessu sögulega húsi", segir Berglind Ósk Guðmundsdóttir 28 ára lögfræðingur sem kjörin var á þing á laugardag.

Berglind skipaði 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og var mætt á þingflokksfund í morgun. Hún hafði aldrei áður stigið fæti inn fyrir dyr Alþingis. 

„Það er ánægjulegt að vera loksins komin hingað, hitta fólk og kynnast því.“ 

Á hvaða mál ætlar hún að leggja áherslu?

„Ég ætla að tala fyrir málefnum míns kjördæmis. Ég legg áherslu á málefni unga fólksins. Þá eru menntun, orkumál og fjölbreytt atvinnutækifæri mér ofarlega í huga.“ 

Hvaðan kemur áhuginn á stjórnmálum, ertu búin að hafa áhuga á pólitík lengi?

„Já alveg síðan ég var lítil. Mamma kallaði mig litla forsætisráðherrann.“ 

En forsætisráðherrastóllinn er laus?  

„Ég geri ekki ráð fyrir því að fara þangað strax.“ 

Berglind segir að fjölskyldan og vinirnir hafi alveg geta búist við þessu.

„Þannig að þetta er bara draumur að verða að veruleika að koma hingað og láta vonandi gott af sér leiða. Ég geri ráð fyrir að starfið hér á Alþingi standist væntingar. Það verða auðvitað einhver átök og spennandi tímar. Ég er bjartsýn fyrir þeim tímum sem eru framundan.“