Kenndi sjálfum sér íslensku á unglingsárunum

Mynd: AEL / RÚV

Kenndi sjálfum sér íslensku á unglingsárunum

28.09.2021 - 09:03

Höfundar

Á unglingsárunum ákvað Derek T. Allen að kenna sjálfum sér íslensku. Tæpum tíu árum síðar hefur hann búið á Íslandi í fimm ár og er nú nýkjörinn forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta, LÍS, þar sem hann berst fyrir hagsmunum allra stúdenta á landinu.

Derek T. Allen var kjörinn forseti LÍS í mars og varð þar með fyrsti útlendingurinn til að gegna embættinu. Sjálfur segir Derek að hálfgerð tilviljun hafi ráðið því að hann hafi boðið sig fram í starfið eftir að hafa fengið hvatningu frá fráfarandi forseta. 

Í starfi sínu berst Derek fyrir hagsmunum allra háskólastúdenta á Íslandi auk íslenskra nemenda erlendis. Verkefnin eru því mörg og ansi fjölbreytt. „Ég held að stærsta vandamálið sé að það er ekki tekið mikið mark á stúdentum. Það er enn þá verið að tala um Menntasjóð og að kjörin séu ekki nógu góð. Það er verið að þvinga stúdenta til að mæta á prófstað, líka í miðjum heimsfaraldri,” segir Derek um helstu baráttumál stúdenta um þessar mundir. 

Hann var ekki alveg ókunnur starfi LÍS þegar hann tók við formennsku en hann var áður jafnréttisfulltrúi samtakanna. Þar starfaði hann mikið með flóttamönnum sem glímdu oft við önnur vandamál en íslenskir kollegar þeirra. Flóttamenn sem höfðu áður stundað nám og vildu halda því áfram lentu oft í vandræðum með að fá fyrra nám sitt metið á Íslandi. Derek segir að þeim hafi oft reynst erfitt að nálgast gögn sem sýndu fram á fyrri námsárangur, bæði vegna þess að innviðir landanna voru ekki til staðar og vegna þess að oft myndu nemendur leggja sig í mikla hættu með að óska eftir þessum gögnum, þar sem það gæfi yfirvöldum vísbendingu um að þau ætluðu sér að flýja land.

Þrátt fyrir að hálfgerð tilviljun réði því að hann endaði í stúdentapólitík er engin tilviljun að Derek hafi stundað nám á Íslandi. Hann er fæddur í Bandaríkjunum og ólst upp í Washington-ríki. Á unglingsaldrinum fór hann að huga að háskólanámi og varð strax ákveðinn í að læra erlendis. „Ég vissi að ég vildi ekki fara í háskóla í Bandaríkjunum. Ég vildi fara eitthvað út, fannst það heillandi. Ég valdi að læra íslensku,” segir Derek.

Hann hóf því íslenskunám sitt einungis 16 ára. „Ég var að kenna sjálfum mér íslensku 2012 til 2016,” segir Derek sem fór þá í íslensku sem annað mál í háskólanum og þar sem honum gekk vel fór hann í frekara íslenskunám við Háskóla Íslands og lauk svo meistaranámi í þýðingafræði. 

Íslenska er ekki eina tungumálið sem Derek talar, en sjálfur segist hann einungis vera reiprennandi í ensku og íslensku. „Ég kann íslensku og ensku reiprennandi. Ég kann eitthvað á hollensku, ungversku, spænsku og portúgölsku. Ég kann örlitla kínversku, pólsku og nokkur orð í serbnesku. Ég var í háskólanámi í arabísku en er búinn að gleyma miklu. Gæti þó örugglega bjargað mér á arabísku,” segir Derek sem vill helst læra öll tungumál. 

Nánar var rætt við Derek í Sunnudagssögum á Rás 2. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.