Hraunflæðið á La Palma hefur náð sjónum

28.09.2021 - 23:20
Mynd: EFE-EPA / EFE-EPA
Hraun sem flæðir úr eldfjallinu Rajada á eyjunni La Palma á Kanaríeyjum hefur nú náð alla leið að sjó. Áhyggjur eru af því að eiturgufur leysist úr læðingi þegar hraunið flæðir í sjóinn og að sprengingar verði.

Sérfræðingar hafa varað við því að þegar hraunið renni í sjó fram muni eiturgufur leysast úr læðingi sem geti haft verulega neikvæð áhrif á andrúmsloftið. Umferð skipa var þar af leiðandi bönnuð í tveggja sjómílna fjarlægð frá svæðinu sem hraun stefnir að.

Eldgos hófst í fjallinu sunnudaginn 19. september og hafa mörg þúsund manns þurft að flýja heimili sín og mörg hundruð heimili horfið undir hraun.