Fjöldi flatra fugla lentur á húsveggjum Flateyrar

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Fjöldi flatra fugla lentur á húsveggjum Flateyrar

28.09.2021 - 09:55

Höfundar

Smám saman lentu fuglar, hver á fætur öðrum, á húsveggjum Flateyrar í sumar. Þeir eru verk listakonunnar Jean Larson - sem ætlaði reyndar bara að mála einn fugl - á vinnustofu sína í þorpinu. „Miðað við hvernig húsið er í laginu fannst mér tilvalið að mála á húsið hrafn á ljósastaur,“ segir Jean sem hefur haft aðsetur á Flateyri undanfarin níu ár.

Hrafninn vakti athygli þorpsbúa og fólk fór að benda Jean á fleiri veggi, og sína veggi, og svo fór að það fengust styrkir til að stækka verkefnið. „Þetta var leið til að gefa eitthvað til baka til samfélagsins, það hafa allir verið svo dásamlegir, þetta gæti verið fræðandi verkefni fyrir börn og leið til að fá fólk til að fara út úr bílunum sínum og ganga um þorpið,“ segir Jean.

Allir fuglarnir sem Jean hefur málað eiga það sameiginlegt að þeir finnast í Önundarfirði. Hún hefur málað fugla á tólf misáberandi stöðum í þorpinu. Næsta vor ætlar Jean svo að mála þrettánda fuglinn en hann var boðinn upp til styrktar Fuglavernd. 

Landinn skoðaði fuglana hennar Jean. Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.