Búast við samgöngu- og rafmagnstruflunum vegna veðurs

28.09.2021 - 07:09
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Í dag gengur yfir kröpp og djúp lægð með norðurströndinni sem sveigir yfir Vestfirði þegar líður á daginn. Hvessir því mjög af norðri og norðvestri og má reikna með stormi víða á norðanverðu landinu, en roki eða ofsaveðri á Vestfjörðum, Ströndum og við Breiðafjörð.

Lægðinni fylgir öflugt úrkomusvæði sem skilar sér í talsverðri eða mikilli rigningu á láglendi nyrðra en slyddu eða snjókomu inn til landsins. Einnig gengur á með norðvestan hvassviðri eða stormi og éljagangi á Vesturlandi.

„Íbúar á umræddum svæðum eru minntir á að gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi fram á kvöld, og vart þarf að taka fram að tryggja þarf lausamuni utandyra og að ráðið er frá ferðalögum. Búast má við samgöngu- og rafmagnstruflunum á Norðurlandi, Ströndum, Vestfjörðum og við Breiðafjörð í dag og eru Almannavarnir með óvissustig vegna veðurs,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Gul veðurviðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan eitt í dag til miðnættis. Búist er við norðvestan 13 til 18 metrum á sekúndu. Gengur á með éljum og færð gæti spillst. Á Norðurlandi eystra hefur gul veðurviðvörun verið í gildi frá því klukkan sex í morgun, og verður í gildi til klukkan tvö. Þar er norðan 15 til 23 metrar á sekúndu og slydda, en snjókoma á fjallvegum með skafrenningi og takmörkuðu eða lélegu skyggni.

Best sleppur Suður- og Suðausturland við óveðrið en engar viðvaranir eru í gildi á þeim slóðum.

Seint í kvöld og nótt fer loks að draga úr veðurhæð og úrkomu og á morgun er spáð sunnankalda eða strekkingi með skúrum eða slydduéljum, en hægari vindi og þurrviðri norðaustan til. Fremur svalt í veðri þó hiti geti náð níu stigum suðaustanlands að deginum.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV