„Bókstaflega rigndi inn aðstoðarbeiðnum“

28.09.2021 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Veðurspá um norðvestanhríð norðan- og vestanlands hefur gengið eftir í dag. Veðrið er nú í hámarki á Vesturlandi og Vestfjörðum, þar sem útköllum björgunarsveita tók að fjölga síðdegis.

Appelsínugular viðvaranir verða í gildi fram á kvöld við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Fjallvegir á Vestfjörðum eru víðast hvar lokaðir og eins er lokað yfir Holtavörðuheiði og víða á Snæfellsnesi.

Rafmagn fór af öllu Ísafjarðardjúpi rétt fyrir klukkan þrjú og viðgerðaflokkur fer af stað vegna straumleysis í Ketildölum þegar veður lægir, en það náði hámarki á Vestfjörðum nú síðdegis og í kjölfarið fór útköllum björgunarsveita að fjölga. 

„Það breyttist aðeins takturinn í þessu þegar byrjaði að hvessa rétt fyrir fjögur á Ísafirði og svæðinu þar í kring. Þá bókstaflega rigndi inn aðstoðarbeiðnum í svona klukkutíma vegna foktengdra verkefna. Björgunarsveitir voru sendar út í hátt í þrjátíu verkefni á um einum og hálfum klukkutíma. Um fjögur fóru líka að koma tilkynningar um vatnselg á Siglufirði, þá var vatn farið að flæða ofan í kjallara. Björgunarsveitir og slökkvilið á staðnum hafa verið að sinna því núna alveg síðan um fjögurleytið,“ segir Davíð Már Bjarnason er upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Björgunarsveitarbíll á Ísafirði í dag.

„Þetta er svolítið óþekkt hætta“

Veðrið er annars að mestu gengið niður á Norðurlandi, en síðdegis lokaði lögreglan á Sauðárkróki svæði af nærri Sauðá eftir að krapastífla myndaðist í ánni, enda hætt við tjóni þegar flaumurinn fer af stað.

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, segir að staðan sé mjög óljós.

„Þurfum að taka þetta mjög alvarlega og erum á varðbergi. Við ætlum að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að reyna að koma í veg fyrir tjón og slys, ef flóðið kemur. Það hefur ekki verið gert hættumat þarna, mér vitanlega, og þetta er svolítið óþekkt hætta. Það er betra að gefa sér ekkert í þessum efnum, við þurfum að taka þetta alvarlega. Við vitum ekkert hvaða afleiðingar það hefur ef myndast þarna krapaflóð,“ segir Birgir Jónasson.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann K. Jóhannsson
Staðan á Siglufirði í dag þegar flæða tók inn í kjallara.

„Þetta er búið að vera mjög vont veður“

Sigurður Jónsson veðurfræðingur segir þennan hvell hafa verið stóran.

„Þetta er búið að vera mjög hvasst, einkum á Vestfjörðum. Vindhraði milli 30 og 40 metrar á sekúndu og ennþá meira í hviðum. Þetta er búið að vera mjög vont veður.

Það fer nú að draga úr þessu nokkuð hratt næstu klukkutímana. Lægðarmiðjan verður að þoka sér yfir Vestfirðina í nótt og inn á Breiðafjörðinn, þannig það fer að draga úr þessu. Allar  viðvaranir ættu að vera dottnar úr gildi á miðnætti,“ segir Sigurður.

Það er kominn töluverður snjór þar sem ofankoman var hvað mest.

„Ég er ekkert viss um að hann eigi eftir að hverfa. Það eru engin hlýindi hjá okkur fram undan. Við getum alveg gert ráð fyrir því að snjórinn haldist þar sem hann er kominn,“ segir Sigurður.

Hvað með höfuðborgarsvæðið?

„Það var verið að spá því að það kæmi hvöss vestanátt seinni partinn og í kvöld, jafnvel með hríðarveðri. Hún hefur ekki alveg skilað sér, en það er mjög hvasst á Faxaflóanum. Þar er stormur eða rok og við þurfum bara að sjá til hvort við sleppum,“ segir Sigurður Jónsson veðurfræðingur.