Aðgerðum hætt á Sauðárkróki - eðlilegt rennsli í Sauðá

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Búið er að aflétta lokunum innanbæjar á Sauðárkróki sem gripið var til fyrr í dag vegna gruns um krapastíflu í Sauðá. Eftir skoðun þar tilbærra sérfræðinga, þegar veður gekk niður, kom í ljós að rennsli er orðið eðlilegt að nýju.

frá þessu er greint á Fésbókarsíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Er því öllum aðgerðum við Sauðá lokið. Fyrr í dag var óttast að stór krapastífla hefði myndast í Sauðá þar sem áin var hætt að renna að mestu leyti.

Í framhaldinu biðlaði lögreglan til fólks að vera ekki á ferð við Sauðána og alls ekki í Litla-skógi né leiksvæði Árskóla. Einnig var fólk beðið um að vera ekki á ferð vestan við verknámshús Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki.

Nú er sem fyrr segir eðlilegt rennsli í ánni á ný og því hefur öllum aðgerðum verið hætt.