„Við viljum fá að vita hvað gerðist“

27.09.2021 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson
Formaður Landskjörstjórnar segir óvíst hvenær hægt verður að gefa út kjörbréf. Stjórnin hefur kallað eftir skýrslum frá öllum yfirkjörstjórnum fyrir klukkan átta í kvöld.

Landskjörstjórn kom saman til fundar eftir hádegi. Niðurstaða þess fundar var að óska eftir skýrslum frá öllum yfirkjörstjórnum auk þess að óska eftir sérstökum skýrslum frá yfirkjörstjórnum í Norðvestur og Suðurkjördæmi. Þessar skýrslur þurfa að berast fyrir klukkan átta í kvöld.

„Við viljum fá að vita hvað gerðist, hvað raunverulega fór úrskeiðis og tökum ákvarðanir á grundvelli þess,“ segir Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar. 

Yfirkjörstjórnir hafa ekki sent endanlegar niðurstöður til Landskjörstjórnar. Þar af leiðandi hefur Landskjörstjórn ekki úthlutað þingsætum og gefið út kjörbréf. Kristín segir óvíst hvenær hægt verður að gera það. 

„Við tökum bara eitt skref í einu og það er farið vel yfir allt þannig að ég get ekki svarað því hér og nú hvenær þau verða útgefin.“