Þörf á uppstokkun hjá Kristilegum demókrötum

epa09491511 Armin Laschet, chancellor candidate of the Christian Democrats (CDU/CSU) union, at the press conference at CDU headquarters the day after federal elections, in Berlin, Germany, 27 September 2021. The CDU/CSU came in a close second behind the Social Democrats, according to preliminary results.  EPA-EFE/Maja Hitij / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Getty
Leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi segir þörf á uppstokkun í flokknum eftir skellinn sem hann fékk í þingkosningum í gær. Sjálfur segist hann reiðubúinn að reyna að mynda nýja ríkisstjórn með öðrum flokkum.

Kristilegir demókratar og systurflokkurinn í Bæjaralandi fengu 24,1 prósent atkvæða í þingkosningunum í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem fylgið fer undir þrjátíu prósent.

Armin Laschet, leiðtogi flokksins, sagðist á fundi með fréttamönnum í dag, eiga sinn hlut í óförum flokksins en þörf væri á uppstokkun á öllum sviðum flokksstarfsins. Hann kvaðst eigi að síður vera tilbúinn að reyna að mynda nýja stjórn, þótt enginn flokkur, Kristilegir demókratar eða Jafnaðarmenn, ættu kröfu á að leiða nýja stjórn eftir úrslit gærdagsins.

Laschet sagði á fundinum að sér hugnaðist best svokölluð Jamaíka-samsteypustjórn, það er stjórn Kristilegu flokkanna, Græningja og Frjálsra demókrata. En hann sagðist ekki útiloka neina flokka, ekki heldur Jafnaðarmenn sem Kristilegir hafa verið með í stjórn um árabil. 

Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmanna, lýsti í dag yfir sigri í þingkosningunum. Hann segir orðið tímabært að Kristilegir demókratar fái frí frá stjórnarsetu. Hans fyrsti kostur sé að mynda stjórn með Græningjum og Frjálsum demókrötum. 

Fjölmiðlar gera ráð fyrir löngum óvissutíma í þýskum stjórnmálum, jafnvel að ný stjórn verði ekki mynduð fyrr en undir jól.