„Þetta verður vont - þetta verður mjög vont“

27.09.2021 - 18:07
Mynd með færslu
Norðurárdalur. Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna slæmrar veðurspár á morgun, þriðjudag. Viðvörunin nær til Vestfjarða, Norðurlands vestra og eystra. „Þetta verður vont - þetta verður mjög vont,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Íbúar í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu ættu að hafa varan á þegar þeir halda heim eftir vinnu síðdegis á morgun.

Birta segir að versta veðrið verði á Vestfjörðum, Breiðafirði og Ströndum. Þar er búið að gefa út appelsínugular viðvaranir. „Þetta er óvenjulegt því þetta er norðvestanátt með 20 til 25 metrum á sekúndu. Vindurinn á því greiða leið inn í firðina.“

Þessi mikli vindstyrkur er ekki það eina sem þarf að hafa í huga. Því óveðrinu getur fylgt öldugangur og mikil úrkoma. „Þetta er sem betur fer fyrsti snjórinn. Svona veður er óvenjulegt fyrir september og þetta gæti verið með verri veðrum sem við sjáum í vetur.“

Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir norðan og vestanvert landið. Á síðdegis á morgun tekur gildi gul viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið. Þá er von á éljum eða slydduéljum þegar fólk er á leið heim úr vinnu. „Íbúar í efri byggðum ætti að hafa varan á.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV