Telur lögum ekki fylgt við endurtalningu

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Við endurtalningu í Norðvesturkjördæmi flugu jöfnunarsæti á milli kjördæma, þó að þingstyrkur flokkanna hafi ekki breyst. Í Suðurkjördæmi var krafist endurtalningar því afar mjótt var á munum. Fyrrverandi þingmennirnir Jón Þór Ólafsson (P) og Silja Dögg Gunnarsdóttir (B) eru sammála um að staðan sé ekki góð. Óvissa rýri traust á lýðræði og Jón Þór efast um að farið sé að lögum.

 „Þetta er mjög slæmt. Grundvöllurinn fyrir því að lýðræðiskerfi virki er að fólk hafi traust á kosningum. Ég hefði haldið að margir séu búnir að missa traustið en það veltur á því sem gerist í framhaldinu. Ég geti ekki túlkað þetta öðruvísi en að það sé ekki verið að fylgja lögunum varðandi þessa endurtalningu í Norðvesturkjördæmi, segir Jón Þór Ólafsson fyrrverandi þingmaður Pírata og fyrrverandi formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis. Hann spyr hvort að það sé í raun heimilt að endurtelja og hvort að niðurstaðan sé örugg eftir fyrstu talninguna. „Atkvæðin voru ekki geymd samkvæmt lögum og innsigluðu heldur geymt í læstu  hótelherbergi þar sem hver sem er getur gengið inn. Við sjáum að þegar atkvæðin voru talinu aftur voru skyndilega tólf færri auð atkvæði og samt sem áður aðeins tvö fleiri heildaratkvæði. Þannig að það eru yfir 10 atkvæði sem verða bara að atkvæðum einhverra.“

Aulalegt að þurfa að draga til baka fréttir af kvennasigri

Silja Dögg  treystir þvi að sérfræðingar í lögum og meðferð á kjörgögnum skýri stöðuna fljótlega helst í kvöld.

„Þetta er mjög slæmt til afspurnar...við stærum okkur af því að vera eitt elsta lýðræðisríki í heiminum og við viljum geta treyst okkar kerfi og að sjálfsögðu að fara eftir lögum.  Það að þetta skuli hafa komið upp er afar slæmt, segir Silja Dögg.  „Líka að við vorum að fagna því að nú væru í fyrsta skipti meiri hluti þingmanna konur. Það var stórfrétt á heimsvísu og það að þurfa að draga það til bara er mjög aulalegt. “

Hlýða má á viðtalið við Jón Þór og Silju Dögg um endurtalningar, traust og stjórnarhorfur  í spilaranum að ofan.