Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stefna á að kjósa um sameiningu strax í janúar

Jón Gíslason, oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps.
 Mynd: RÚV
Mikill meirihluti kjósenda í sveitarfélaginu Húnavatnshreppi vill að hreppurinn fari í sameiningarviðræður við Blönduósbæ. Þetta er niðurstaðan í skoðanakönnun á vegum sveitarfélagsins sem fór fram samhliða þingkosningum. Oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps vonar að hægt verði að kjósa um sameiningu í sérstökum kosningum í janúar.

Sameiningu hafnað í sumar

Í júní var kosið um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Norðvesturlandi, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skagabyggðar, en tillagan var felld. Síðan þá hafa verið þreifingar á milli Blönduóss og Húnavatnshrepps annars vegar og Skagastrandar og Skagabyggðar hins vegar.

Sjá einnig: Sameiningartillaga felld í Skagabyggð og á Skagaströnd

Hugur íbúa kannaður um helgina

Samhliða kosningum til Alþingis um helgina var svo framkvæmd skoðanakönnun meðal íbúa í Húnavatnshreppi þar sem hugur til sameiningar við Blönduóss var kannaður. Jón Gíslason er oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps. „Þessi skoðunarkönnun var nú gerð að í framhaldi af ósk Blönduósbæjar um sameingarviðræður og við vildum bara hafa skýrt umboð sveitarstjórnar til að fara í þannig viðræður,“ segir Jón. 

Fara strax í viðræður

227 kjósendur tóku þátt í könnuninni og voru niðurstöðurnar þær að tæplega 65% sögðu já og rúm 33% nei. Jón segir að sameingarviðræður hefjist þegar í stað. „Það lá fyrir þegar við fórum í þessa skoðunarkönnun að ef að hún yrði jákvæð að þá myndum við samþykkja að fara í viðræður við Blönduós.“

Hvenær munuð þið setjast niður með þeim á Blönduósi?

„Bara næstu daga, við viljum stefna að því að geta kosið um sameiningu í janúar.“

Drónamyndir af Blönduósi.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Blönduós