Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Píratar taka undir kröfu um endurtalningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Píratar taka undir kröfu Vinstri grænna um endurtalningu í Suðurkjördæmi. Þetta skrifar Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti Pírata í kjördæminu, á Facebook. Hún segir að það sé sjálfsögð lýðræðisleg regla að endurtelja og ganga úr skugga um að sjö atkvæða munur á milli Vinstri grænna og Miðflokks sé réttur.

Hún segir Pírata hafa komið þessum athugasemdum á framfæri við yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis, og jafnframt beðið um skýringar á því hvernig atkvæða var gætt eftir að talningu lauk.

Endurtalningarinnar er óskað eftir að endurtalning í Norðvesturkjördæmi leiddi í ljós nokkuð misræmi frá lokatölum í kjördæminu. Þó aðeins munaði nokkrum atkvæðum til eða frá, og breytti ekki heildarstöðunni á landsvísu, varð breytingin til þess að jöfnunarsæti flokka færðust á milli kjördæma. Þannig urðu fimm sem töldu sig vera inni á þingi í dag að víkja fyrir öðrum fimm seinni partinn.

Krafa Pírata um að fá að vita hvernig atkvæða var gætt kemur að líkindum vegna þess að formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi sagði í samtali við Vísi.is að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð að talningu lokinni, líkt og lög gera ráð fyrir. Þess í stað voru gögnin geymd inni í læstum sal á hótelinu á Borgarnesi, hefur Vísir eftir Inga Tryggvasyni, og viðurkenndi hann að atkvæði hafi aldrei verið innsigluð eftir þingkosningar, þrátt fyrir skýr lög um það.