Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Miklir yfirburðir Bandaríkjanna í Ryder-bikarnum

epa09490662 The US team celebrates with the Ryder Cup trophy after winning on the final day of the pandemic-delayed 2020 Ryder Cup golf tournament at the Whistling Straits golf course in Kohler, Wisconsin, USA, 26 September 2021.  EPA-EFE/TANNEN MAURY
 Mynd: EPA - RÚV

Miklir yfirburðir Bandaríkjanna í Ryder-bikarnum

27.09.2021 - 07:45
Bandaríkjamenn fóru létt með lið Evrópu í Ryder-bikarnum í golfi sem haldinn var um helgina. Bandaríska liðið hafði forystuna frá upphafi til enda og vann að lokum 19-9.

Mótið er yfirleitt haldið annað hvert ár en nú liðu þrjú ár á milli vegna kórónuveirufaraldursins. Keppt er í holukeppni en ekki hinum hefðbundna höggleik. Spilað var á Whistling Straits-vellinum í Wisconsin í Bandaríkjunum. 

Bandaríska liðið sló tóninn strax á fyrsta degi með sex vinningum gegn tveimur. Þá var spilaður fjórmenningur og fjórbolti eða betri bolti. Sama fyrirkomulag var á degi tvö og aftur unnu Bandaríkin 5-3.

Í gær var svo leikið í tvímenningi og tólf vinningar í boði. Bandaríkjamenn unnu átta einvígi og þar með mótið 19-9. Það var Collin Morikawa sem sigldi sigrinum í höfn þegar hann tryggði sér hálft stig gegn Viktor Hovland en þeir voru jafnir eftir 18 holur. 

Fyrir mótið í ár hafði Evrópa unnið fjórar af síðustu fimm keppnum.