Hefur opnað listasýningu á kjördag á Ísafirði síðan '87

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV

Hefur opnað listasýningu á kjördag á Ísafirði síðan '87

27.09.2021 - 15:54

Höfundar

Kristján Guðmundsson, myndlistarmaður, opnaði fyrst myndlistarsýningu á kjördag alþingiskosninga á Ísafirði árið 1987. Það varð svo að hefð og á laugardaginn opnaði Kristján sjöttu myndlistarsýningu sína á kjördag alþingiskosninga á Ísafirði. „Ef stjórnin springur þá sýni ég ekki, það skeði einu sinni. Stjórnin sprakk og þá var of stutt á milli sýninga og ég kom ekki þá,“ segir Kristján.

Óteiknaðar teikningar

Sýningin sem ber ekkert heiti. Hún samanstendur af tólf blekteikningum sem hafa verið klipptar niður úr annarri blekteikningu. „Svo er lindin, sem er þakrenna sem ég lét gera fyrir mig, og það er einn lítri af bleki í henni. - Óteiknaðar teikningar,“ segir Kristján. 

Verkin tengjast ekki kosningum

Kristján man ekki hvernig það kom til að hann sýndi fyrst á kjördag en inntak verkanna tengjast ekki kosningum. „Nei, ekkert sem tengist kosningunum, ekki neitt, ekkert pólitískt, ekkert kosningalegt.“

Sér til með næstu sýningaropnun

Kristjáni finnst bara nokkuð hátíðlegt að opna sýningar á kjördag og þar sem hann er ávallt fjarri heimili sínu á kjördag hefur hann kosið utan kjörfundar þessi skipti. Kristján setur fyrirvara á hvort hann setji aftur upp sýningu á Ísafirði eftir fjögur ár. „Ef ég verð lifandi og í sæmilegu formi þá veit maður aldrei, það er bara þannig, sjáum bara til,“ segir Kristján Guðmundsson að lokum.