Hafði gaman að „einvíginu“ gegn Óskari Hrafni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Hafði gaman að „einvíginu“ gegn Óskari Hrafni

27.09.2021 - 10:44
„Tilfinningin að verða Íslandsmeistari er yndisleg, þetta var frábær dagur í alla staði,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings í samtali við Sportrásina á Rás 2 í gærkvöldi.

Víkingar fögnuðu Íslandsmeistaratitli í fyrsta sinn í 30 ár í úrvalsdeild karla í fótbolta á laugardaginn. Liðið vann Leikni 2-0 í lokaumferðinni og endaði stigi ofar en Blikar í deildinni. 

„Maður þurfti stundum að klípa sig aðeins eftir leikinn. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir daginn.“

Arnar segir að ró hafi færst yfir þegar Nikolaj Hansen skoraði fyrsta mark leiksins en bæði mörk Víkinga komu í fyrri hálfleik. 

„Það var rosalega skrítin stemning í hálfleik í klefanum. Sumir voru mjög einbeittir en aðra þurfti aðeins að, ég segi ekki kveikja á en tilfinningarnar voru að bera suma ofurliðið þarna.“

Víkingur hafnaði í tíunda sæti í deildinni í fyrra og var spáð sjöunda sæti í ár. Þeir voru hins vegar í 1.-3. sæti nánast frá fyrstu umferð. 

„Við vorum einfaldlega með fleiri vopn í vopnabúrinu en önnur lið í deildinni og ég held að það sé aðalástæðan fyrir því að við stöndum uppi sem sigurvegarar. Við spiluðum sjaldan sama kerfi út allan leikinn. Ég var mjög óánægður með sjálfan mig eftir síðasta tímabil og maður er alltaf að læra í þessum leik. Við tókum okkur allir á.“

Þegar ljóst var í hvað stefndi í lokaumferðunum settu margir stöðuna upp sem einvígi þjálfaranna tveggja; Arnars hjá Víkingi og Óskars Hrafns Þorvaldssonar hjá Breiðabliki. 

„Já, ég varð mikið var við þetta. Ég hafði mjög gaman að því sko. Við Óskar erum fínir félagar en það er alltaf gaman að svona smá, svo ég sletti, „rivalry“. Þegar því er stillt upp þannig í fjölmiðlum. Blikarnir eru eitt besta lið sem ég hef séð á Íslandi og eiga allt gott skilið. Og það gerir sigurinn okkar eiginlega enn sætari.“

Arnars bíður nú það verkefni að ná liðinu niður á jörðina fyrir næsta verkefni sem eru undanúrslit í bikarkeppninni gegn Vestra frá Ísafirði. Hann hefur ekki áhyggjur af einbeitingarleysi eða því að menn séu orðnir saddir. „Fótbolti er bara það yndislegur leikur að það getur allt gerst.“