Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Færri auðir en fleiri ógildir í Norðvesturkjördæmi

27.09.2021 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Töldum atkvæðum fjölgaði um tvö þegar atkvæði voru endurtalin í Norðvesturkjördæmi í gær. Atkvæði sem voru sögð auð fækkaði en ógildum atkvæðum fjölgaði.

Endurtalningin í Norðvesturkjördæmi í gær breytti engu um kosningaúrslitin en hafði talsverð áhrif á hverjir komust á þing. Erlendir fjölmiðlar þurftu reyndar líka að leiðrétta fréttir sínar þess efnis að Ísland væri fyrsta landið í Evrópu þar sem konur væru meirihluti þingmanna því kynjahlutfallið breyttist.

Í upphaflegum lokatölum voru talin atkvæði 17.666, auðir voru 394 og ógildir 24.  Eftir endurtalningu hafði töldum atkvæðum fjölgað um tvö, voru 17.668 en ekki 17.666. Auðum hafði fækkað um tólf, fóru úr 394 í 382 og fleiri atkvæði höfðu verið úrskurðuð ógild; þau voru fyrst 24 en voru orðin 35.

Atkvæði allra flokka breyttust lítillega. Þannig fékk Sjálfstæðisflokkurinn 10 atkvæðum meira en fyrst var talið.

Framsókn fékk fimm fleiri atkvæði; fór úr 4.443 í 4.448. Stuðningur við Viðreisn dróst saman um níu atkvæði. Í stað þess að fá 1.072 fékk flokkurinn 1.063.  

Flokkur fólksins fékk þremur færri atkvæði, hann fékk fyrst 1.513 en þau urðu 1.510. Sjö atkvæði bættust við hjá Sósíalistaflokknum, úr 721 í 728. 

Miðflokkurinn fékk fimm færri atkvæði,  fékk 1.278 en ekki 1.283 eins og í upphaflegu talningunni.

Aðeins eitt atkvæði fór af Pírötum, Samfylkingu og Vinstri grænum.

Þingstyrkur flokkanna á landsvísu breyttist ekkert við þetta en jöfnunarþingmennirnir fóru á talsvert flakk.

Bergþór Ólason komst inn sem jöfnunarþingmaður Miðflokksins í Norðvestur í stað Karls Gauta Hjaltason í Suðvesturkjördæmi. Karl Gauti hefur kært framkvæmd endurtalningarinnar til lögreglunnar. 

Hólmfríður Árnadóttir datt út sem jöfnunarþingmaður Vinstri grænna í Suðurkjördæmi og í stað hennar kom Orri Páll Jóhannsson sem jöfnunarþingmaður flokksins í Reykjavík suður.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir var ekki lengur jöfnunarþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík suður heldur datt Jóhann Páll Jóhannsson inn sem jöfnunarþingmaður flokksins í Reykjavík norður.

Guðmundur Gunnarsson hjá Viðreisn var ekki lengur jöfnunarþingmaður í Norðvestur heldur Guðbrandur Einarsson í Suðurkjördæmi. Flokkurinn hefur óskað eftir greinargerð frá kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi um framkvæmd endurtalningarinnar og segir Guðmundur að þegar hún liggi fyrir verði tekin ákvörðun um næstu skref.

Lenya Rún Taha Karim féll við þetta af þingi sem jöfnunarþingmaður Pírata í Reykjavík norður. Stað hennar kom Gísli Ólafsson sem jöfnunarþingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi. Oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi hefur kært kosninguna í kjördæminu til kjörbréfanefndar þar sem hann fer fram á nýjar kosningar.

Það mun falla í skaut Alþingis að staðfesta niðurstöðu kosninganna. Landskjörstjórn kemur saman til fundar eftir hádegi til að fara yfir stöðuna. Það gæti síðan farið af stað önnur hringekja síðar í dag því fjórir flokkar hafa farið fram á endurtalningu í Suðurkjördæmi.  Aðeins munaði sjö atkvæðum á fulltrúum Vinstri grænna og Miðflokksins í kjördæminu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV